Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Alþingi lauk störfum aðfaranótt síðasta sunnudags en í haust verður gengið til kosninga. Hægt er að gera upp þingveturinn með margvíslegum hætti. Tölfræðin hjálpar en segir ekki alla söguna – hún mælir ekki gæði lagasetningar og svarar engum spurningum um hvort samþykkt lög auki almenna velmegun, styrki stöðu atvinnulífsins eða byggi styrkari stoðir undir framtíðina.
En tölfræðin leiðir fram að þingið var starfsamt eins og þingforseti vék að í ræðu áður en þingfundi var frestað. Alls urðu 133 stjórnarfrumvörp að lögum, ellefu nefndarfrumvörp og sex frumvörp þingmanna. Í heild voru því samþykkt 150 lög en þar með er ekki sagan öll sögð. Alls voru samþykktar 34 þingsályktunartillögur; 21 stjórnartillaga, sjö nefndartillögur og sex þingmannatillögur. Ráðherrar svöruðu 261 skriflegri fyrirspurn og 18 munnlegum. Það virðist orðin sérstök listgrein þingmanna að leggja fram fyrirspurnir og óska eftir upplýsingum sem liggja fyrir opinberlega.
Og líkt og áður stendur einn þingmaður eftir sem ræðukóngur. Að þessu sinni var það Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sem er ekki ókunnugur þeim titli. Hann talaði í einn sólarhring, þrjá klukkutíma og tuttugu mínútur í 324 ræðum. Þetta er liðlega fimm sinnum lengur en sá er þetta skrifar talaði (og ég tala hægar en Birgir).
Óheilbrigðir hvatar
Ég hef í gegnum árin verið gagnrýninn á þann mælikvarða sem flestir styðjast við þegar mat er lagt á þinghald, frammistöðu ráðherra og þingmanna. Fjöldi afgreiddra mála – lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna – segir lítið sem ekkert um gæði og störf löggjafans. Raunar er hægt að færa rök fyrir því að eftir því sem meira er afgreitt því verra sé það fyrir almenning og fyrirtækin. Lífið verður flóknara og oftar en ekki þyngjast byrðarnar.
Hvatinn til að afgreiða þingmál er sterkur, ekki síst hjá ráðherrum. Störf þeirra eru vegin og metin af fjölmiðlum, en ekki síður þingmönnum, út frá fjölda frumvarpa sem þeir leggja fram á hverjum þingvetri. Gæði frumvarpa er aukaatriði – efnisinnihald skiptir minna máli en að leggja fram lagafrumvarp. Hvatarnir eru rangir og óheilbrigðir.
En þrátt fyrir allt var margt vel gert. Síðustu tvö löggjafarþing hafa einkennst mjög af baráttunni við efnahagslegar afleiðingar kórónuveirunnar. Á síðustu tveimur þingum hafa 57 lagafrumvarp verið samþykkt til að verja samfélagið, fyrirtækin og heimilin. Í flestu hefur tekist vel til. Framleiðslugetan var varin og þannig tryggt að atvinnulífið sé í stakk búið til að grípa tækifærin sem gefast nú þegar við komumst út úr kófinu. Ég fullyrði að við þá vinnu hafi þingmenn sýnt sínar bestu hliðar, verið samtaka í mótvægisaðgerðum þótt auðvitað hafi verið meiningamunur í einhverju. Það er örugglega rétt hjá forseta þingsins að mótvægisaðgerðirnar hafa átt sinn þátt í því að traust til Alþingis hefur aukist verulega – úr 23% í febrúar 2020 í 34% á þessu ári.
Eins og alltaf var handagangur í öskjunni á síðustu vikum og dögum þingsins og kannski meiri en oft áður þar sem kosningar eru skammt undan. Ég ítrekaði oft við félaga mína í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og einnig við nokkra samverkamenn í stjórnarliðinu að sum mál – frumvörp ríkisstjórnar og þingmanna – væru einfaldlega þannig að hvorki himinn né jörð myndi farast þótt þau dagaði uppi og yrðu ekki afgreidd. Raunar væru nokkur sem aldrei mætti samþykkja.
Margt vel gert
Þegar ég lít yfir þingveturinn er ég ágætlega sáttur. Baráttan gegn alvarlegum efnahagslegum afleiðingum kórónuveirunnar tókst í heildina vel. Þrátt fyrir þrengingar voru ýmsir skattar lækkaðir, byggt var undir nýsköpun og sprotafyrirtæki með skattalegum hvötum, ríkisstofnunum var fækkað, ráðherrar Sjálfstæðisflokksins beittu sér fyrir einföldun regluverks, afnámi úreltra laga og stigin voru mikilvæg skref í stafrænni stjórnsýslu. Það var einnig sérstaklega gleðilegt að undir forystu Bjarna Benediktssonar voru stoðir almannaheillasamtaka styrktar með því að innleiða skattalega hvata fyrir einstaklinga og fyrirtæki til að styrkja starfsemi björgunarsveita, íþróttafélaga, líknarsamtaka og fleiri almannaheillafélaga. Íslenskt samfélag mun njóta þessa ríkulega í framtíðinni.
Komið var í veg fyrir lögþvingaða sameiningu sveitarfélaga. Hálendisþjóðgarðurinn varð ekki að veruleika og útilokað var að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp með öðrum hætti en vísa því aftur til ríkisstjórnar. (Hvernig staðið var að verki við frumvarpið er ágætt skólabókardæmi um hvernig ekki á að vinna ef ætlunin er að mynda sátt og samstöðu meðal almennings, landeiganda og sveitarfélaga um mikilvægt mál.)
En svo voru tekin hættuleg skref. Ríkisstyrkir til sjálfstæðra fjölmiðla voru samþykktir. Ég sat hjá, sem er yfirlýsing stjórnarþingmanns um andstöðu við ríkisstjórnarmál. Á sama tíma sat fast í nefnd frumvarp mitt og Brynjars Níelssonar um að draga Ríkisútvarpið í áföngum út af samkeppnismarkaði fjölmiðla. Með samþykkt þess hefði rekstrarumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla orðið heilbrigðara en meirihluti þingheims hefur ekki burði til slíkra aðgerða og valdi því ríkisstyrki.
Ýmis framfaramál náðust ekki fram en verða verkefni á komandi kjörtímabili. Þolinmæði og stefnufesta skila árangri. Þetta þekkja sjálfstæðismenn betur en aðrir í baráttu gegn forræðishyggju. En hægt og bítandi nær frelsið yfirhöndinni. Í þeirri fullvissu er gott að leggja upp í kosningabaráttu.
Morgunblaðið 16. júní. 2021