Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Fossvogsskóli er skólabókardæmi um vanrækslu. Skólabókardæmi um vanrækt viðhald. Vanrækta upplýsingagjöf. Og vanræktar viðgerðir. Fram hefur komið að búið er að þrefalda framlög til viðhalds skólabygginga frá 2016. Það segir einmitt mikla sögu. Það sýnir svart á hvítu hvað viðhaldið var vanrækt árum saman.
Borgin ber margfalda ábyrgð. Förum aðeins yfir það.
Heilbrigðiseftirlitið heyrir undir borgina. Skóla- og frístundasvið heyrir undir borgina. Skólahúsnæði heyrir undir borgina. Viðhald Fossvogsskóla heyrir undir borgina. Heilbrigði barna og kennara heyrir undir borgina. Framkvæmdir heyra undir borgarstjóra sem er framkvæmdastjóri borgarinnar samkvæmt lögum. Hann ber ábyrgð á þessari vanrækslu sem var ákveðin í fjárhagsáætlunum Samfylkingarinnar árum saman. Frestun á viðhaldi er dýrkeypt lán. Sennilega dýrustu lán sem borgin tekur. Og er þó nóg annað tekið að láni.
Hvenær verður Fossvogsskóli í lagi?
Eftir stendur spurningin: Hvenær geta nemendur Fossvogsskóla stundað nám á ný í hverfinu sínu? Og hvernig er ákvörðun tekin um að flytja kennsluna annað? Börnin voru flutt í Laugardalshöll, Korpuskóla, Fossvogsskóla og aftur í Korpuskóla. Fyrirvaralítið.
Og er Korpuskóli eina lausnin fyrir börn í Fossvogi árið 2022 eftir þriggja ára umræðu um málið? Liðin eru þrjú ár þar sem foreldrar hafa þurft að berjast fyrir upplýsingum. Foreldrar fengu afar litlar upplýsingar. Kjörnir fulltrúar litlar upplýsingar. Gagnsæið var lítið. Myglan mikil. Og asbest sem enginn vissi um, eða er það asbest sem enginn fékk að vita um? Foreldrar þurftu að sækja rétt sinn og barna sinna. Knýja á um úttektir sem borgin trassaði að gera.
Enn er verið að fegra málið
Nú er talað um að „nútímavæða“ þegar hér þarf einfaldlega að tryggja heilnæmt húsnæði eins og börnin eiga kröfu um.
Það er ekki nútímavæðing að koma í veg fyrir leka, raka, myglu og asbest. Það eru einfaldlega kröfur um heilnæmi. Borgin sinnti ekki viðhaldinu en talar fjálglega um lýðheilsustefnu. Annað húsnæði borgarinnar hefur líka liðið fyrir lélegt viðhald. Leikskólar og frístundahúsnæði. Meira að segja Korpuskóli sem nú er notaður sem varaskeifa.
Húsnæði í Gufunesi reyndist asbestmengað. Félagsbústaðir búa við of lítið viðhald. Og er einhver búinn að gleyma höfuðstöðvum Orkuveitu Reykjavíkur? Báran er ekki stök. Hún er það sjaldnast.
Milljörðum sóað, en viðhaldið sparað
Á sama tíma og milljarðar hafa farið í miðlæga stjórnsýslu var viðhaldi frestað. Viljandi. Borgin hefur handvalið eigin félög í viðskiptum og þverneitað að bjóða út þjónustu fyrir milljarða króna þvert á lög. Fjórir nýir úrskurðir hafa fallið um lögbrot borgarinnar í innkaupum. Samtök iðnaðarins kærðu ólögmæt margra milljarða LED-kaup borgarinnar af ON, dótturfélagi Orkuveitunnar, sem gerð voru án útboðs. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins vildu bjóða út raforkukaup borgarinnar en því var hafnað. Nú liggur fyrir úrskurður um að þessi kaup voru ólögmæt. Sama er að segja um ólögleg útboð vegna ljósastýringar (sem klárlega er í lamasessi). Þessi innkaup hafa kostað borgina gríðarlegt tjón þar sem keypt er á of háu verði. Hvernig getur borgin réttlætt það að vanrækja viðhald á skólahúsnæði á sama tíma og sóun viðgengst gegndarlaust? Svo ekki sé meira sagt þegar sóunin er að hluta ólögleg þjónustukaup, en allt að 25% verðmunur er á raforku, svo dæmi séu tekin. Bragginn er víða þegar vel er að gáð.
Hvar er afsökunarbeiðnin?
Borgin skuldar mikið. Hún skuldar börnum betra húsnæði. Og hún skuldar öllum sem málið varðar skýringar. Og hún skuldar einlæga afsökunarbeiðni. Og hvar er borgarstjóri?
Hann er ekki á mælendaskrá þegar vandamálin eru rædd í borgarstjórn. Fjallar um lýðheilsustefnu í löngu máli. En ekkert heyrist í honum þegar mál eru erfið. Það væri við hæfi að afsökunarbeiðni kæmi frá borgarstjóra á hvernig komið er fyrir Fossvogsskóla. Biðja foreldra, kennara og nemendur afsökunar. Það væri góð byrjun, nú þegar mál Fossvogsskóla eru komin á byrjunarreit.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. júní 2021.