Óráðsía í Reykjavík
'}}

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi:

Nýstaðfestur ársreikningur Reykjavíkurborgar er enginn yndislestur fyrir okkur hægri menn sem viljum ráðdeild í opinberum rekstri.

Þeir tekjustofnar Reykjavíkur sem lög gera ráð fyrir eru nær fullnýttir. Borgin innheimtir hæsta lögleyfða útsvar, fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru ósamkeppnishæfir og krónutala fasteignagjalda fer hækkandi árlega. Tekjutuskan er undin til fulls og rekstrarkostnaður eykst samhliða. Vandi borgarinnar er ekki tekjuvandi – hann er útgjaldavandi.

Samhliða eykst skuldsetning samstæðunnar um 41 milljarð milli ára. Það gera 3,4 milljarða mánaðarlega, rúmar 112 milljónir daglega eða tæpar 5 milljónir á klukkustund. Það samsvarar jafnframt rúmlega 1,2 milljónum á hefðbundna vísitölufjölskyldu árlega.

Rjúkandi rúst?

Á landsfundi Samfylkingar árið 2018 sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fjárhagsstöðu borgarinnar hafa verið „rjúkandi rúst“ eftir stuttan valdatíma sjálfstæðismanna sem lauk árið 2010. Vísaði borgarstjóri til tveggja ára setu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í borgarstjórastóli í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn tók við stjórnartaumum í borginni árið 2008, í aðdraganda bankahruns. Við samfélaginu blöstu krefjandi aðstæður, atvinnuleysi jókst umtalsvert og fleiri sóttu í velferðarúrræði borgarinnar. Allt benti til þess að rekstur borgarsjóðs yrði þungur. Að mörgu leyti aðstæður sambærilegar þeim sem við þekkjum í dag. Yfir þennan tveggja ára tíma tókst þó að halda örugglega um fjárhag borgarinnar. Skuldir borgarsjóðs jukust einungis um 3 milljarða meðan tekjur drógust saman um tæpan milljarð. Borgarsjóður var þó einn fárra sem skilaði jákvæðri rekstrarniðurstöðu mitt í djúpri efnahagslægð.

Nú eru liðin þrjú ár af núverandi kjörtímabili borgarstjóra, Dags B. Eggertssonar – kjörtímabili sem hófst á toppi hagsveiflunnar en stendur nú í miðri efnahagslægð. Yfir þetta þriggja ára tímabil hefur ekki tekist að halda örugglega um fjárhag borgarinnar. Skuldir borgarsjóðs hafa aukist verulega þrátt fyrir árlega 6-8 milljarða tekjuaukningu. Borgarsjóður skilar neikvæðri rekstrarniðurstöðu. Fjárhagsstaða borgarinnar er rjúkandi rúst.

Ráðdeild í rekstri

Síðasta kjörtímabil horfði borgin fram á fordæmalaust tekjugóðæri. Á toppi hagsveiflunnar jukust skuldir verulega og hvergi búið í haginn fyrir mögru árin. Nú hefur lukkan snúist skyndilega og rekstur borgarinnar nær ósjálfbær.

Við þurfum aukna ráðdeild í rekstri borgarinnar. Við sjálfstæðismenn viljum draga úr opinberum umsvifum. Við viljum selja hvort tveggja Gagnaveituna og malbikunarstöðina Höfða, enda ekki hlutverk hins opinbera að standa í samkeppnisrekstri. Eignasala getur staðið undir mikilvægri innviðauppbyggingu og dregið úr frekari skuldsetningu.

Við viljum að hjólin taki aftur að snúast hér í Reykjavík. Við viljum lækka álögur, tryggja lægri fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði og samkeppnishæf skilyrði til húsnæðisuppbyggingar. Við viljum draga úr opinberum afskiptum, einfalda regluverk og tryggja sveigjanlega og rafræna stjórnsýslu.

Við viljum tryggja fólki og fyrirtækjum örugga afkomu og öfluga viðspyrnu. Við trúum því að fjölgun opinberra starfa sé varhugaverð og ósjálfbær þróun. Mikilvægasta atvinnuskapandi aðgerðin verði alltaf myndarlegri stuðningur við atvinnulíf. Með betri skilyrðum til verðmætasköpunar verjum við störf, sköpum grundvöll fyrir ný störf og tryggjum raunveruleg tækifæri til viðspyrnu.

Við sjálfstæðismenn stöndum vörð um frjálsa, umburðarlynda og réttláta Reykjavík – borg sem tryggir frjóan jarðveg fyrir sókn og framfarir – með ábyrgum rekstri, sanngjörnum álögum og auknu frelsi.

Morgunblaðið, 22.maí. 2021