Skuldir Reykjavíkurborgar jukust um 3400 milljónir á mánuði
'}}

„Skuldaþróunin fór á virkilegt flug þegar þessi meirihluti var myndaður. Árið 2018 kemur Viðreisn inn og lætur setja sérstaklega inn í meirihlutasáttmála að skuldir skuli greiddar niður í góðærinu. Það var sett inn í sáttmálann en niðurgreiðslumarkmiðið var ekki áður. Og það var akkúrat þá sem fór að síga virkilega á ógæfuhliðina. Þessi ár, sem við sjáum, 2017 og 18, eru óumdeild góðærisár. Toppurinn á mesta góðæristímabili lýðveldissögunnar.“

Þetta var meðal þess sem kom fram í máli Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur, á sameiginlegum fundi Varðar og borgarstjórnarflokksins um fjármál Reykjavíkurborgar á laugardaginn var, en gengið var frá ársreikningi borgarinnar 11. maí sl.

„299 milljarðar voru skuldirnar þegar þessi meirihluti var myndaður, en niðurstaðan í dag er sú, eftir tvö heil ár hjá þeim, að þær hafa hækkað í 386 milljarða. Og bara tveir milljarðar fóru í Covid-aðgerðir,“ bætti Eyþór við á fundinum.

„Á einu ári hafa skuldir samstæðu borgarinnar aukist um 41 milljarð króna, eða sem nemur 3.400 milljónum í hverjum einasta mánuði sem  samsvarar 112 milljónum á degi hverjum,“ sagði hann enn fremur á fundinum.

Þá benti Eyþór á að Reykjavík sé eitt fjögurra stærstu sveitarfélaganna höfuðborgarsvæðinu sem skilaði tapi en afgangur var á rekstri Kópavogs, Garðabæjar og Hafnarfjarðar.