Þétting byggðar
'}}

Reykjavíkurborg hefur stækkað ört á síðustu áratugum. Borgin sem hér áður fyrr var þéttust í mið- og vesturbænum hefur nú teigt sig langt í austur og ný hverfi hafa orðið þar til á landi sem áður var að mestu óbyggt. Slík þróun er fylgifiskur gríðarlegrar fólksfjölgunar sem var mjög ör í Reykjavík á þessum árum. Reykjavíkurborg er langt frá því að vera eina borgin sem hefur farið í gegnum tímabil þar sem gríðarleg fólksfjölgun verður á stuttu tímabili og mikil útþensla byggðar fylgir. Það er þó þannig að með aukinni meðvitund okkar um sjálfbæra þróun, loftlagsmál og þau áhrif sem við höfum á allt umhverfi okkar er sem betur fer alltaf verið að leita leiða til þess að bæta borgarsamfélagið. Ein þeirra leiða er þétting byggðar, sem er mjög góð lausn til þess að fjölga íbúum, við styttum vegalengdir sem fólk þarf að ferðast, drögum þannig úr mengun og minnkum þörf á að byggja á áður óbyggðum svæðum.

Kvistir

Það er ekki auðvelt að þétta byggð í grónum hverfum. Þeir eru ekki margir sem geta byggt heilu hæðinar á hús þar sem það má eða rifið niður og byggt upp ný hús vegna gríðarlegs kostnaðar sem því fylgir. Það er hins vegar einn kostur sem margir gætu farið, það er að bæta við kvisti á húsnæði. Það skýtur því örlítið skökku við að strangar reglur séu hjá Reykjavíkurborg um stækkun húsa með því að setja kvisti á hús. Það að bæta kvisti á hús sér í lagi í vestasta hluta borgarinnar er sú leið sem margir geta farið til þess að stækka við sig húsnæði. Þannig fengjum við fjölbreyttari íbúðir fyrir mismunandi fjölskyldugerðir, ásamt betri birtuskilyrðum og loftgæðum í íbúðunum. Með því værum við að auka lýðheilsu og lífsgæði með einföldum hætti ásamt því að stuðla að þéttingu byggðar og skapa okkur ávinning umhverfislega. Mikilvægt er því að Reykjavíkurborg verði sveigjanlegri á reglum um byggingu kvista á húsnæði í Vesturbænum til þess að þétta byggðina og auka lífsgæði þeirra sem þar búa.

Valgerður Sigurðardótti borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins

Vesturbæjarblaðið. apríl. 2021