Þúsund ár
'}}

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Nýj­asta út­spil vinstrimanna og Viðreisn­ar í borg­inni er að þrengja enn frek­ar að um­ferð og lengja ferðatíma fólks. Af­leiðing­arn­ar eru mikl­ar. Raun­veru­leg hætta er á að um­ferðin leiti meira inn í íbúðahverfi þegar þrengt er að helstu sam­gönguæðunum. Svo er það hitt. Fólk þarf að vera leng­ur í bíl­um og hef­ur minni tíma af­lögu í annað.

Sam­kvæmt töl­um úr áætl­un borg­ar­inn­ar sjálfr­ar mun ferðatími fólks lengj­ast um 5.882 klukku­stund­ir á dag eft­ir að aðgerðaáætl­un­in hef­ur verið fram­kvæmd. Það ger­ir 200.000 vinnu­daga á ári. Um 1.000 vinnu­ár í auk­inn ferðatíma fólks í Reykja­vík á ári hverju. Þetta mun ger­ast á sama tíma og talað er um að stytta vinnu­vik­una.

Dag­ur ei meir

Tími fólks er verðmæt­ur. Þótt það sé alltaf álita­mál hvernig tím­inn sé met­inn til fjár­muna er hægt að reikna hvað þetta þýðir miðað við meðallaun. Þau eru rúm­lega 600 þúsund á mánuði. Miðað við for­send­ur borg­ar­inn­ar er þessi viðbót­ar­ferðatími fólks ígildi kostnaðar upp á átta millj­arða króna á ári. Það þýðir þjóðhags­leg­an kostnað upp á 320 millj­arða á 40 árum. Verðtryggt.

Það er um­hugs­un­ar­efni hvernig sami borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­inn get­ur lagst gegn nauðsyn­leg­um úr­bót­um í ljós­a­stýr­ingu, sem enn hafa ekki orðið, og fer hægt í að bæta snjall­væðingu og lýs­ingu gang­brauta vegna kostnaðar. En sleng­ir svo fram fimm ára áætl­un um að lengja ferðatíma fólks­ins í borg­inni um eitt þúsund vinnu­ár. Spar­ar við sig hag­kvæm­ar úr­bæt­ur í ör­ygg­is­mál­um en hik­ar ekki við að leggja auka­byrðar á fólkið með töf­um og kostnaði. Er ekki kom­inn tími til að tengja?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2021.