Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Nýjasta útspil vinstrimanna og Viðreisnar í borginni er að þrengja enn frekar að umferð og lengja ferðatíma fólks. Afleiðingarnar eru miklar. Raunveruleg hætta er á að umferðin leiti meira inn í íbúðahverfi þegar þrengt er að helstu samgönguæðunum. Svo er það hitt. Fólk þarf að vera lengur í bílum og hefur minni tíma aflögu í annað.
Samkvæmt tölum úr áætlun borgarinnar sjálfrar mun ferðatími fólks lengjast um 5.882 klukkustundir á dag eftir að aðgerðaáætlunin hefur verið framkvæmd. Það gerir 200.000 vinnudaga á ári. Um 1.000 vinnuár í aukinn ferðatíma fólks í Reykjavík á ári hverju. Þetta mun gerast á sama tíma og talað er um að stytta vinnuvikuna.
Dagur ei meir
Tími fólks er verðmætur. Þótt það sé alltaf álitamál hvernig tíminn sé metinn til fjármuna er hægt að reikna hvað þetta þýðir miðað við meðallaun. Þau eru rúmlega 600 þúsund á mánuði. Miðað við forsendur borgarinnar er þessi viðbótarferðatími fólks ígildi kostnaðar upp á átta milljarða króna á ári. Það þýðir þjóðhagslegan kostnað upp á 320 milljarða á 40 árum. Verðtryggt.
Það er umhugsunarefni hvernig sami borgarstjórnarmeirihlutinn getur lagst gegn nauðsynlegum úrbótum í ljósastýringu, sem enn hafa ekki orðið, og fer hægt í að bæta snjallvæðingu og lýsingu gangbrauta vegna kostnaðar. En slengir svo fram fimm ára áætlun um að lengja ferðatíma fólksins í borginni um eitt þúsund vinnuár. Sparar við sig hagkvæmar úrbætur í öryggismálum en hikar ekki við að leggja aukabyrðar á fólkið með töfum og kostnaði. Er ekki kominn tími til að tengja?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. apríl 2021.