Það er erfitt að ímynda sér hvernig sagan hefði orðið ef hún hefði farið á annan veg. Sjálfur hef ég tekið öllum örlögum og tekið öllu sem óumflýjanlegu. Mennirnir vilja en guð ræður. Þannig er duglaus stjórn mikil blessun, því þá fer öllu fram á sem eðlilegastan máta. Stríð hefur sinn gang, með drápi og eyðileggingu. Þegar stríði lýkur skrifar sigurvegarinn söguna, sína sögu! Sá sem tapar er gjarnan hengdur. Þannig getur sá sem tapar aldrei sagt sína sögu.
Síðari heimstyrjöldin
Í íslensku máli er talað um hina fyrri og hina síðari heimsstyrjöld. Sennilega er það af þrá til þess að ekki verði hin þriðja! Heimsstyrjöldum skuli lokið. Endalok fyrri heimsstyrjaldarinnar urðu með friðarsamningum en hinni síðari lauk með skilyrðislausri uppgjöf. Friðarsamingar og stríðsskaðabætur, sem um var samið, urðu aldrei annað en pappír. Stoltur Þjóðverji réð landa sinn, Matthias Erzberge, af dögum fyrir að undirrita uppgjafarsamninga við Frakka.
Að loknum réttarhöldum í Nürnberger voru þeir, sem gáfust upp fyrir hönd Þjóðverja, hengdir. Það voru Alfred Jodl og Wilhelm Keitel. Sá er tók við uppgjafaryfirlýsingunni varð síðar Bandaríkjaforseti.
Japanskeisari var látinn koma um borð í bandarískt herskip til að undirrita uppgjafarskjal, en til að sameina japönsku þjóðina, hélt hann keisadómi sínum og afkomendur hans síðar.
Japanir höfðu þolað þau hörmulegustu örlög, sem nokkur þjóð getur hlotið, með tveimur kjarnaorkusprengjum.
Örlög Evrópu
Þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk, var álfan í rúst. Framleiðslugeta í verksmiðjum var lítil og kaupgeta á mætvælum á sama veg.
Bandaríkin höfðu þvælst inn í styrjöldina með hervernd á Íslandi og síðar af öllu afli þegar japanskar flugvélar réðust á Perluhöfn á Hawai. Með þessum tveimur atburðum, herverndarsamningi á Íslandi og óvinaárás á Hawai var Monroe kenningunni varpað fyrir róða að hálfu leyti. Bandaríkin hófu íhlutun í öðrum heimsálfum, í Evrópu og í Kyrrahafslöndum.
Viðbrögðin eftir stríð voru öll önnur en eftir fyrri stríð. Nú skyldi sigurvegarinn hjálpa löndunum, sem áttu í stríði, við að byggja upp framleiðslugetu sína til að tryggja að öfgaöfl, kommónista, nasista og fasista næðu ekki fóstfestu aftur.
Ræða George C Marshall, hershöfðingja, í hlutverki utanríksráðherra
Ég hef oft velt því fyrir mér hvort ræða sú er utanríkisráðherrann hélt í Harvard háskóla þann 5. júní hafi verið óvænt, hvort gamli 5 stjörnu hershöfðinginn hafi kynnt áform sín um endurreisn Evrópu. Eða hvers var að vænta í þakkarræðu gamla hershöfðingjans fyrir heiður, sem háskólinn veitti honum?
Af hverju flutti utanríkisráðherrann ræðuna en ekki Harry S Truman forseti?
Í Morgunblaðinu segir daginn eftir ræðuna; „Bandaríkin vilja aðstoða Evrópulönd“ og „ Marshall fer fram á samvinnu nauðstaddra ríkja.“
„Hver sú ríkisstjórn, sem er fús til að aðstoða í endurreisnarstarfinu, mun mæta algerri samvinnu Bandaríkjastjórnar. En hver sú stjórn, sem gerir tilraun til að hindra viðreisn annarra landa, getur ekki vænst hjálpar okkar"
Daginn sem sagt er frá ræðu Marshall segir Morgunblaðið: „Sama dag staðfesti öldungadeild Bandaríkjaþings friðarsamninga við Ítalíu, Rúmeníu, Búlgaríu og Ungverjaland. Einn öldungadeildarþingmaður varaði sérstaklega við því að ef friðarsamningur við Ítalíu yrði ekki staðfestur, „myndi það hafa í för með sér algera upplausn þar í landi, en slíkt aftur opna leiðina til valdatöku kommúnista.“
Morgunblaðið segir einnig: „Í ræðu sinni benti Marshall einnig á, að þörf Evrópu fyrir matvæli og aðrar nauðsynjar næstu þrjú til fjögur árin væri svo mun meiri en núverandi greiðslugeta álfunnar, að hún yrði að fá aukna hjálp, eða ella horfast í augu við alvarlega efnahags- og stjórnmálakreppu. Það væri því ekki nema eðlilegt, að Bandaríkin gerðu allt, sem þau gætu, til að aðstoða við að koma á eðlilegu efnahagsheilbrigði veraldarinnar, enda væri friðurinn að öðrum kosti ekki tryggður.“
Ef tengja á Marshall áætlunina við stefnu í efnahagsmálum, yrði áætlunin tengd við Keynes, án þess að nokkur hafi nokkru sinni botnað í Keynes.
Hershöfðinginn og friður
Hershöfðinginn hefur skynjað það að hefðbundnar lausnir sigurvegara tryggðu ekki frið. Í raun var enginn samningsaðili til í Þýskalandi. Landið var hernumið og skipt í hernámssvæði.
Hvernig hefði Evrópa litið út ef ekki hefði komið til Marshall aðstoðar?
Hershöfðinginn taldi nauðsynlegt að árangur uppbyggingarinnar yrði mældur með samræmdum hætti. Til þess yrði að mæla árangur og færa samræmda þjóðhagsreikninga. Efnahagssamvinnustofnun var falið það hlutverk. Sú stofnun heitir nú Efnahags- og framfarastofnunin, OECD.
Með því að byggja upp iðnað, innviði og atvinnulíf var komið í veg fyrir að öfgaöfl næðu fótfestu í hinu hersetna landi. Sambandsráð og sambandslýðveldi er stofnað 1949, tveimur árum eftir ræðu Marshall. Adenauer og Erhardt unnu úr framlagi Marshall áætlunarinnar og sköpuðu þýska efnahagsundrið.
Endanlegar sættir Þýskalands og Frakklands komu með Élysée sáttmálanum Adenauer og De Gaulle 1963.
Marshall og Ísland
Íslenskir innviðir biðu ekki tjón af hernaðarátökum. En íslenskir sjómenn fórust í siglingum, oft vegna hernaðarátaka. Íslenskir framleiðsluatvinnuvegir voru ekki í merkilegu standi fyrir stríð. Eftir stríð áttu Íslendingar eignir í erlendum bönkum og áttu þeir að fara í „nýsköpun“. Sú „nýsköpun“ var að mestu fólgin í endurnýjun á togaraflota landsmanna, með gufuvélum þegar dieselvélar voru að halda innreið sína.
Gjaldeyriseign þjóðarinnar hvarf á tveimur árum!
Fyrsta þátttaka íslenskra stjórnvalda í Marshall aðstoðinni var að reyna að selja fisk til hinna stríðshrjáðu landa. Áður en langt um leið, var landið komið í þá stöðu að vera í þörf fyrir aðstoð til uppbyggingar innviða.
Sú uppbygging beindist að raforkuverum, áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju. En það var einnig nokkur hluti aðstoðarinnar sem fór til að viðhalda óbreyttu ástandi í sveitum, þótt landbúnaður hafi á engan hátt staðist sjávarútveginum snúning.
Deila má um það hvort hlutur Íslendinga í Marshall aðstoðinni hafi verið of rausnarlegur í ljósi þess að herseta Breta og Bandaríkjamanna hafði afar góð áhrif á efnahagslífið og margir töluðu um „blessað stríðið“ í gamni og alvöru. Hvað sem því líður þá var hér um mikið fé að ræða. Í hlut Íslands komu um 0,2% heildarfjárhæðarinnar eða 29,3 milljónir dollara sem lætur nærri að hafi verið 10-12% af árlegri landsframleiðslu á árunum eftir stríð. Miðað við núverandi verðlag og stærð hagkerfisins gæti þessi fjárhæð verið yfir 300 milljarðar íslenskra króna.
Síldarverksmiðja og listamiðstöð
Ein síldarverksmiðja var byggð fyrir Marshall fé. Sú var í Reykjavík, kölluð Faxaverksmiðjan, í Efferisey. Mjölvinnsla varð minni en að var stefnt. Verksmiðjuhúsið stendur enn sem minnisvarði um Marshall aðstoðina, hornstein hagsældar í Evrópu. Húsið er listamiðstöð. Það er öruggt mál að hershöfðinginn og utanríkisráðaherrann sá ekki fyrir að hús í hans nafni stæði við Vesturhöfnina í Reykjavík og efldi listir.
Eftir stendur að George C Marshall var sennilega einn áhrifamesti einstaklingur síðustu aldar. Hann er eini hershöfðinginn, sem hlotið hefur friðarverðlaun Nobels.