Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Á síðustu dögum hefur ráðuneyti mitt opnað tvo rafræna gagnagrunna, annars vegar Mælaborð fiskeldis og hins vegar Mælaborð landbúnaðarins. Megintilgangurinn að baki báðum þessum verkfærum er hinn sami; að tryggja yfirsýn yfir þessar atvinnugreinar og auka gagnsæi um starfsemi þeirra.
Mælaborð landbúnaðarins
Stofnun Mælaborðs landbúnaðarins er hluti af samkomulagi ríkis og bænda við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga en þar kemur fram að nauðsynlegt þyki að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis og að slíkur gagnagrunnur auki gagnsæi.
Í mælaborðinu er að finna margvíslegar upplýsingar um íslenskan landbúnað. Meðal annars um framleiðslu og innflutning búvara, tölfræðilegar upplýsingar um fjölda bænda og búfénaðar og stuðningsgreiðslur til bænda. Mælaborðið hefur þannig mikið upplýsingagildi fyrir neytendur, bændur, stjórnvöld og aðra sem vilja nálgast upplýsingar um stöðu og þróun helstu upplýsinga og hagtalna í íslenskum landbúnaði.
Í mínum huga er mælaborðið nauðsynlegt verkfæri til að tryggja yfirsýn við framkvæmd landbúnaðarstefnunnar á hverjum tíma. Opnun mælaborðsins markar tímamót því með því eiga stjórnvöld frumkvæði að opinberri birtingu þessara mikilvægu upplýsinga og gera þær aðgengilegar öllum. Gagnsæi er þannig aukið og um leið stuðlað að því að umræða um landbúnað byggist á rauntölum. Næsta skref verður að þróa og styrkja mælaborðið enn frekar.
Mælaborð fiskeldis
Kveikjan að Mælaborði fiskeldis var ráðherrafundur sem ég sótti í Færeyjum sumarið 2018. Þar fékk ég tækifæri til að kynnast stöðunni á fiskeldi í Færeyjum, meðal annars rafrænni upplýsingaveitu sem birti allar helstu upplýsingar um stöðu og þróun greinarinnar. Í kjölfarið setti ég af stað vinnu við að búa til slíkt mælaborð hér á landi.
Árið 2019 voru gerðar breytingar á lögum um fiskeldi. Meðal breytinga var að fiskeldisfyrirtækjum var gert að afhenta Matvælastofnun mánaðarlega ýmsar upplýsingar úr rekstri fyrirtækjanna. Sú breyting gerir okkur kleift að nálgast þessar upplýsingar og birta opinberlega. Þannig er í mælaborðinu að finna upplýsingar um m.a. umfang lífmassa í sjókvíaeldi, umfang rekstrarleyfa, áhættumat, burðarþol, afföll, fjölda fiska og fjölda laxalúsa eftir landshlutum og fjörðum. Einnig er þar að finna kortasjá sem sýnir staðsetningar eldissvæða um landið, hvaða svæði eru í notkun og þróun lífmassa. Þá eru eftirlitsskýrslur Matvælastofnunar vegna eftirlits með rekstri og búnaði fiskeldisstöðva birtar í mælaborðinu.
Frumkvæði stjórnvalda að birtingu þessara upplýsinga eykur gagnsæi í starfsemi greinarinnar, en tryggir um leið heildstæðari yfirsýn yfir stöðu og þróun greinarinnar.
Auðveldar stefnumótun
Stofnun þessara mælaborða er til þess fallin að spara skrifræði, m.a. við svörun upplýsingabeiðna enda slíkt í mörgum tilvikum óþarfi þegar upplýsingarnar eru öllum aðgengilegar. Einna mikilvægast er þó að það sé hægt að nálgast á einum stað rauntölur um starfsemi þessara mikilvægu atvinnugreina. Slík yfirsýn treystir grunn þeirra ákvarðana sem stjórnvöld taka á hverjum tíma og auðveldar heildstæða stefnumótun til framtíðar. Við þurfum enda að þekkja bæði stöðu þessara atvinnugreina og söguna til að geta kortlagt framtíðina, eins og segir í aldamótaljóði Einars Benediktssonar:
Að fortíð skal hyggja, ef frumlegt skal byggja,
án fræðslu þess liðna sést ei, hvað er nýtt.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. apríl 2021.