„Með Mælaborði fiskeldis eru allar helstu upplýsingar um stöðu fiskeldis í sjó og á landi orðnar aðgengilegar á einum stað til hagsbóta fyrir almenning og stjórnvöld. Þetta tímamótaskref að stjórnvöld eigi frumkvæði að birtingu þessara upplýsinga er í samræmi við þá stefnumörkun við breytingu á lögum um fiskeldi 2019 að auka gagnsæi í starfsemi greinarinnar. Þessi birting tryggir um leið heildstæðari yfirsýn yfir stöðu og þróun greinarinnar, sem er mikilvægt fyrir alla hlutaðeigandi,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þegar hann opnaði Mælaborð fiskeldis í gær.
Í mælaborðinu eru birtar m.a. framleiðslutölur, fjöldi fiska, fjöldi laxalúsa og rekstrarleyfi eldisfyrirtækja, ásamt staðsetningu eldissvæða og niðurstöðum eftirlits stofnunarinnar. Markmið birtingar er að auka gagnsæi í starfsemi atvinnugreinarinnar og veita almenningi og hagsmunaaðilum hagnýtar upplýsingar um starfsemina.
Sjá nánar í frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.