Eyþór Arnalds, oddviti borgarstjórnarhóps Sjálfstæðisflokksins:
Stundum eru það litlu málin sem segja mest. Íbúar í Vogabyggð, nýju hverfi í Reykjavík, hafa verið skikkaðir til að rækta berjarunna á því pínulitla svæði sem þeir hafa sjálfir til afnota fyrir utan íbúðir sínar. Í raun hefur borgin sett íþyngjandi skilmála um heimili fólks og þröng skilyrði um hvað megi gera í einkagörðum íbúa. Þetta er forræðishyggja af gamla skólanum. Þessi íhlutun er svo rökstudd með því að verið sé að „fjölga grænu svæðunum“! Á sama tíma er markvisst vegið að helstu grænu svæðum borgarinnar af borgarstjórnarmeirihlutanum sjálfum.
Dæmin eru mörg. Áform um atvinnustarfsemi í Elliðaárdal standa þrátt fyrir mikil mótmæli. Árbæjarlónið hefur verið tæmt. Áform eru um stórfelldar landfyllingar við ósa Elliðaáa og við fjörur Skerjafjarðar. Byggð er víða þétt með því að ganga á græn svæði. Þvert á vilja íbúanna.
Á aðalskipulagsteikningum má finna íbúðablokkir efst í Laugardalnum sem munu skyggja á Laugardalinn. Sú leið að „fjölga grænum svæðum“ með því að skikka fólk til að setja upp einn berjarunna á bak við girðingu er svipað og ef boðið væri upp á eina rúsínu í skólamötuneytum í heilsubótarskyni.
Væri ekki nær að vernda og efla grænu almenningsrýmin, en leyfa fólkinu sjálfu að ráða görðum sínum?
Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. apríl 2021.