Jón Gunnarsson, ritari Sjálfstæðisflokksins og alþingismaður:
Við erum í dauðafæri með að ná okkur hratt og örugglega upp úr þeim áföllum sem á okkur hafa dunið og við verðum að nýta þau. Okkur hefur gengið betur en flestum þjóðum að eiga við óværuna sem dunið hefur á heiminum. Efnahagsleg áhrif eru mikil og atvinnuleysi er ömurleg afleiðing. Við verðum að beita öllum vopnum okkar til að endurheimta efnahagslegan styrk, treysta stöðugleika og skapa ný tækifæri til verðmæta- og atvinnusköpunar.
Ferðaþjónustan mun taka við sér og fara að skila sínu en reynslan segir okkur að við verðum að fjölga eggjunum í körfunni. Heilmikil gróska á sér stað í nýsköpun á fjölbreyttum sviðum s.s. líftækni, hugverkaiðnaði, kvikmyndagerð og fleira má nefna. Þau skref sem stigin hafa verið af stjórnvöldum til eflingar nýsköpun eru góð. En bestu tækifærin liggja í þeim greinum þar sem menntun, þekking og reynsla okkar fólks er til staðar. Má þar nefna fiskeldi sem í senn hefur gríðarleg byggðarleg áhrif og efnahagsleg fyrir samfélagið allt. Við stefnum að því að verða fremst meðal þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og höfum þar alla möguleika. Við eigum líka mikil tækifæri í framleiðslu á eldsneyti svo sem vetni sem mun leika lykilhlutverk í orkuskiptum. Orkufyrirtækin eru þegar farin að skoða þessi tækifæri. Á næsta ári verður lagður nýr fjarskiptastrengur til Evrópu, með honum tryggjum við aukið öryggi í gagnaflutningum. Við þær breytingar verður Ísland enn ákjósanlegri staðsetning fyrir gagnaver sem geta skapað mikil verðmæti. Aukin matvælaframleiðsla í hefðbundnum greinum og þó alveg sérstaklega í ylrækt á að mínu mati mikla framtíð fyrir sér víða um land. Þá má nefna viðræður Landsvirkjunar við aðila sem hafa áhuga á framleiðslu rafgeyma fyrir farartæki sem sagt er að muni skapa gríðarleg tækifæri.
Þessi stutta upptalning segir okkur að við erum í kjöraðstöðu til að vinna hratt og vel á því atvinnuleysi sem hrjáir okkur um stund. Auk þess sem við munum skjóta nýjum sterkum stoðum undir það velferðarsamfélag sem við byggjum.
„Við viljum græna atvinnubyltingu byggða á nýsköpun, rannsóknum og þróun“. Þetta eru að mínu mati ofnotuðustu frasar í pólitískri umræðu um þessi mál. Þetta segir ekki nema hálfa söguna. Þau tækifæri sem ég hef farið hér yfir eiga það sammerkt að þurfa mikla orku, græna orku, til að geta orðið að veruleika. Það þarf að svara því hvaðan sú orka á að koma. Frumvarp umhverfisráðherra um hálendisþjóðgarð gerir það ekki. Sú stefna sem þar birtist er reyndar til þess fallin að tækifærum til að spila í efstu deild er fórnað.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. apríl 2021.