„Mælaborð landbúnaðarins er nauðsynlegt verkfæri til að tryggja yfirsýn við framkvæmd landbúnaðarstefnunnar á hverjum tíma. Opnun mælaborðsins í dag markar því tímamót því með því eru stjórnvöld að eiga frumkvæði að því að birta opinberlega þessar mikilvægu upplýsingar þannig að þær séu aðgengilegar öllum. Auka þannig gangsæi en um leið yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu til hagsbóta fyrir alla þá sem koma að íslenskum landbúnaði. Um leið stuðla að því að umræða um landbúnað byggi á rauntölum. Næsta skref verður að þróa og styrkja mælaborðið enn frekar,” segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem í dag opnaði Mælaborð landbúnaðarins.
Mælaborðið er aðgengilegt á vefnum www.mælaborðlandbúnaðarins.is
Mælaborðið hefur mikið upplýsingagildi fyrir neytendur, bændur, stjórnvöld og aðra sem vilja nálgast upplýsingar um stöðu og þróun helstu upplýsinga og hagtalna í íslenskum landbúnaði. Dæmi um upplýsingar í mælaborðinu eru stuðningsgreiðslur til bænda, framleiðsla og innflutningur búvara og tölfræðilegar upplýsingar um fjölda bænda og búfénaðar.
Stofnun mælaborðsins er hluti af samkomulagi ríkis og bænda við endurskoðun rammasamnings búvörusamninga en þar kemur fram að nauðsynleg þyki að hafa yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir í landinu m.a. vegna fæðuöryggis og slíkur gagnagrunnur eykur gagnsæi. Þá er mælaborðið liður í aðgerðaráætlun sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldurs á íslenskan landbúnað.
Mælaborðið byggir að miklu leyti á gögnum úr Afurð, greiðslukerfi landbúnaðarins hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en einnig eru gögn sótt til Hagstofu Íslands. Mælaborðið er sett upp í Power BI sem er viðskiptagreindarhugbúnaður frá Microsoft og gefur möguleika á að skoða gögn með gagnvirkum hætti.
Mælaborð landbúnaðarins er þróunarverkefni en í fyrsta áfanga, sem var kynntur í dag, er lögð áhersla yfirsýn yfir framleiðslu, sölu og birgðir landbúnaðarafurða hér á landi, auk stuðnings við bændur samkvæmt búvörusamningum. Áfram verður unnið að framþróun mælaborðsins til að það nýtist sem verkfæri til að fylgjast með þróun þeirra markmiða sem sett eru í búvörusamningum og landbúnaðarstefnu auk þess að stuðla að fæðuöryggi.