Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Nú er útlit fyrir að halli ríkissjóðs á síðasta ári hafi verið 200 milljarðar eða 6,6% af vergri landsframleiðslu. Á þessu ári er útlit fyrir miklu meiri halla eða 10,2%. Það er mun verri afkoma en 2009, fyrsta árið eftir bankahrunið, og þótti þó flestum nóg um.
Þessi alvarlega staða ógnar velferð landsmanna. En hún kemur misjafnlega harkalega niður á fólki til skemmri tíma. Einna verst bitnar hún á þeim ríflega 20 þúsund einstaklingum sem eru atvinnulausir. Fjöldi þeirra sem hefur verið án atvinnu í meira en 12 mánuði hefur meira en tvöfaldast á einu ári og þeir eru nú upp undir fimm þúsund. Heildaratvinnuleysi er farið að nálgast 13% og er meira en það varð mest í kjölfar bankahrunsins.
Blikur á lofti
Ástæðan fyrir þessari slæmu stöðu er í stórum dráttum bara ein: Nær algjör samdráttur í ferðaþjónustu. Atvinnuveginum sem stóð undir um 40% af útflutningstekjum Íslands á liðnum árum.Til lengri tíma vegur þessi staða að grunni velferðar okkar allra, með einum eða öðrum hætti. Lykilspurning í því sambandi er: Hversu langur tími er „til lengri tíma“?
Við getum náð kröftugri viðspyrnu og rétt hratt úr kútnum. En algjör forsenda þess er að ferðaþjónustan nái sér aftur á strik. Áætlanir um afkomu ríkissjóðs á þessu ári (10,2% hallarekstur) miðast við spá Hagstofunnar um að hingað komi yfir 700 þúsund erlendir ferðamenn í ár. Blikur eru á lofti hvað það varðar eins og allir þekkja. Það er alvarlegt og ber að taka alvarlega. Bólusetningar, bæði hér á landi og erlendis, munu ráða mestu um framvinduna.
Ferðaviljinn erlendis
Ef forsendur skapast til að létta á hörðum takmörkunum við landamærin er hins vegar ástæða til bjartsýni. Það sýnir m.a. ný könnun um ferðavilja á helstu markaðssvæðum okkar, sem Íslandsstofa lét gera í febrúar (fyrir gos). Um fjórðungur Bandaríkjamanna býst við að ferðast til útlanda á næstu sex mánuðum. Athygli vekur að hlutfallið er töluvert lægra í Evrópu en engu að síður er ferðaviljinn þokkalegur í ljósi aðstæðna. Júní og september eru oftast nefndir þegar spurt er um tímasetningu. Talið er að miðað við þessar niðurstöður sé ekki alveg útilokað að spár um 700 þúsund ferðamenn geti gengið eftir, en til þess þarf margt fleira að ganga upp.Ísland skorar næsthæst í könnuninni þegar spurt er um viðhorf til sjö landa sem áfangastaðar fyrir ferðamenn. Þar erum við sjónarmun á eftir Nýja-Sjálandi en þessi tvö lönd skera sig nokkuð úr hvað varðar jákvætt viðhorf. Ísland skorar reyndar líka hæst þegar spurt er hvaða löndum fólk treysti best til að hafa stjórn á Covid. (Því miður var ekki spurt um Nýja-Sjáland). Það er alveg ábyggilega orsakasamband þarna á milli; samkeppnisforskot felst í því fyrir Ísland að halda faraldrinum niðri og mikilvægt að hafa það í huga.
Bandaríkjamenn eru líklegastir til að heimsækja Ísland á næstu 12 mánuðum samkvæmt könnuninni. Um 14% þeirra segjast hafa það á stefnuskránni. Þó að hlutfallið sé lægra í Bretlandi var Ísland þó í öðru sæti yfir líklegustu áfangastaði Breta, af þeim löndum sem spurt var um.
Þetta sýnir tækifærin sem við stöndum frammi fyrir til að bæta þá vondu stöðu ríkissjóðs sem lýst var hér að framan og vegur að velferð okkar allra. Og ekki hefur eldgosið í Geldingadal dregið úr þeim.
Fleira skiptir máli
Það væri þó rangt að skilja við málefnið á þeim nótum að ekkert annað en ferðaþjónustan skipti máli fyrir viðspyrnu Íslands. Við höfum ótal sóknarfæri. Nýsköpunarumhverfið dafnar sem aldrei fyrr, meðal annars með auknum stuðningi stjórnvalda. Orkuskipti eru stórt efnahagslegt tækifæri til lengri tíma litið og nýlega var kynnt sérstakt átak sem mun hraða för okkar í átt að grænni framtíð. Við megum aldrei missa sjónar á því hve Ísland á stór tækifæri til vaxtar og velferðar, hversu alvarlegar sem núverandi áskoranir eru.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. apríl 2021.