Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður og formaður þingmannanefndar um endurskoðun norðurslóðastefnu:
Ísland er sannarlega norðurslóðaríki og við sem hér búum getum því talist til íbúa norðurslóða en það eru ekki nema um fjórar milljónir manna sem búa á því svæði. Norðurskautsráðið er án efa mikilvægasti vettvangur samstarfs og samráðs um málefni norðurslóða. Ríkin sem eiga aðild að því eru auk Íslands Bandaríkin, Kanada, Rússland, Noregur, Svíþjóð, Finnland og já konungsveldið Danmörk þar sem Grænland er á norðurslóðum. Öll þessi lönd hafa íbúa sem búa á svæðinu en í öllum tilfellum er það lítið hlutfall íbúa þjóðarinnar, nema hér á Íslandi og svo hjá nágrönnum okkar á Grænlandi. Þessi staðreynd veitir okkur ákveðna sérstöðu í umfjöllun um norðurslóðamál. Áherslur okkar eiga að vera á samfélögin á norðurslóðum, þ.e. hvernig er að búa á þessu svæði sem er það svæði á jarðarkringlunni sem er að umbreytast hvað mest.
Ísinn á norðurskautinu hefur aldrei mælst minni og á aðeins örfáum árum hefur íshellan minnkað um flatarmál sem nemur Frakklandi, Spáni, Þýskalandi, Póllandi og Ítalíu samanlagt! Það er ekkert smáræði. Grænlandsjökull bráðnar nú sem aldrei fyrr og snjókoma dagsins í dag og til framtíðar vegur ekki lengur upp á móti bráðnuninni, jafnvel þótt hlýnun jarðar stöðvaðist í dag.
Ný norðurslóðastefna
Það er því eðlilegt að við leggjum áherslu á norðurslóðamál í utanríkisstefnu okkar og það var mikilvægt skref hjá utanríkisráðherra að skipa þverpólitíska þingmannanefnd um endurskoðun norðurslóðastefnunnar. Það fór vel á því að gera það núna í formennskutíð Íslands í norðurskautsráðinu en tíu ár eru liðin síðan Alþingi samþykkti núgildandi norðurslóðastefnu. Ég fékk það hlutverk að leiða þá vinnu en ásamt mér voru í nefndinni: Njáll Trausti Friðbertsson fyrir Sjálfstæðisflokk, Karl Gauti Hjaltason fyrir Miðflokkinn, Guðjón S. Brjánsson fyrir Samfylkingu, Ari Trausti Guðmundsson fyrir Vinstri-græna, Líneik Anna Sævarsdóttir fyrir Framsóknarflokk, Björn Leví Gunnarsson fyrir Pírata, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir fyrir Viðreisn og Inga Sæland fyrir Flokk fólksins. Með nefndinni starfaði Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir, deildarstjóri norðurslóðamála í utanríkisráðuneytinu.
Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um og gera tillögur að endurskoðaðri stefnu í málefnum norðurslóða út frá víðu sjónarhorni, s.s. vistfræðilegu, efnahagslegu, pólitísku og öryggislegu. Nefndinni var falið að skilgreina meginforsendur stefnunnar og setja fram tillögur sem leggja myndu grunn að þingsályktunartillögu utanríkisráðherra um nýja norðurslóðastefnu. Nefndin tók á móti fjölda gesta á fundum sínum og heimsótti Akureyri þar sem haldnir voru fjölmennir fundir með bæði atvinnulífinu og akademíunni.
Nefndin hefur nú skilað tillögum sínum til ráðherra og væntir þess að utanríkisráðherra leggi fljótlega fram þingsályktun á grunni þeirra tillagna. Tillögurnar eru nítján talsins og snúa að umhverfismálum og sjálfbærni, öryggismálum, leit og björgun, efnahagstækifærum og innviðauppbyggingu, vísindum og nýsköpun og atvinnuuppbyggingu og svo mætti lengi telja en allar miða þær að því að gæta hagsmuna Íslands og tryggja velferð íbúanna.
Ég mun á næstu dögum birta greinar byggðar á þessum tillögum nefndarinnar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. apríl 2021.