Óli Björn Kárason, formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
„Pólitíska andrúmsloftið er á sumri þessu vægast sagt þrungið talsverðri spennu. Í samtölum láta menn undantekningalítið í ljós verulega þreytu í garð stjórnmálaflokkanna og stjórnmálamannanna, og margir þeirra, sem afskipti hafa haft af flokkunum, boða nú afskiptaleysi sitt af flokksstarfi. Eigi þetta við rök að styðjast, er ljóst, að stjórnmálaflokkarnir og stjórnmálamennirnir valda ekki sínu veigamikla hlutverki í þjóðfélaginu.“
Með þessum orðum hófst ítarleg blaðagrein sem Ármann Sveinsson lögfræðinemi skrifaði í Morgunblaðið í ágúst 1968 undir yfirskriftinni: Staðnað stjórnmálalíf. Í greininni leitaði hann skýringa á þreytu og leiða sem honum fannst einkenna stjórnmálin. Í aðdraganda kosninga í haust eru hugleiðingar Ármanns holl lesning, þótt yfir hálf öld sé liðin og þrjú ár betur frá því að hann setti þær á blað.
Ármann Sveinsson hefði orðið 75 ára 14. apríl næstkomandi en hann lést úr heilablóðfalli á heimili sínu aðeins 22 ára – nokkrum mánuðum eftir að hann skrifaði umrædda grein. Ármann vakti strax athygli sem rökfastur hugsjónamaður og þrátt fyrir ungan aldur hafði hann mikil áhrif meðal jafnaldra sinna en ekki síður á þá eldri í Sjálfstæðisflokknum. Í málflutningi var hann rökfastur, ákveðinn og mikill baráttumaður, en alltaf af drengskap. Ármann naut mikils trausts félaga sinna og gekk að öllum verkefnum með dugnaði og atorku.
Í minningargrein um Ármann segir Friðrik Sophusson svo:
„Ármann Sveinsson var hugsjónamaður, sem með hugsjónum sínum og athafnaþrá gæddi umhverfi sitt lífi. Um hann lék jafnan ferskur blær og stundum stormsveipir, eins og oft vill verða um menn, sem eru fastir fyrir og kaupa ekki fylgi á kostnað hugsjóna sinna. Hann var afburða vinsæll í vinahópi og virtur af andstæðingum. Jafnframt því að eiga glæstar hugsjónir var Ármann raunsær baráttumaður, sem var ákveðinn í því að gera hugsjónir sínar að veruleika. Vandaður undirbúningur, auk staðgóðrar þekkingar á íslenskum hagsmunum og þjóðlífi, var ávallt grundvöllur undir baráttu hans fyrir bættu þjóðfélagi. Hann var sívinnandi og óþreytandi og missti aldrei sjónar á markmiðinu. Þeir, sem börðust með honum og undir forystu hans, gátu ætíð vænst árangurs.“
Óglögg skil
Ármann benti á að stjórnmál í löndum Vestur-Evrópu hefðu þróast undanfarna áratugi með þeim hætti að skil milli stefnu stjórnmálaflokka hefðu orðið óskýrari. Sama þróun hefði átt sér stað á Íslandi: „Afleiðing hinna óglöggu skila er sú, að kjósendur eiga æ örðugra með að finna forsendur fyrir stuðningi sínum við einn flokk öðrum fremur. Á þetta einkanlega við yngstu kjósendurna, hinir eldri halda sig í viðjum vanans við „sinn gamla flokk“. Við aðstæður þessar verður yfirbragð stjórnmálanna lágkúrulegt, baráttan virðist standa um tyllistöður og aðstöðu, en ekki um grundvallaratriði stjórnmálanna.“
Ádeila Ármanns er ekki ósvipuð þeirri gagnrýni sem sá er hér skrifar hefur sett fram á síðustu árum. Í pistli hér í Morgunblaðinu í júní 2014 hélt ég því fram að verið væri að gera hugsjónir hornreka – að hugmyndabarátta væri fórnarlamb teknókrata og samræðustjórnmála. Skilin milli stjórnmálaflokka væru að þurrkast út en innihaldslaust hjal tekið við: „Frambjóðendur forðast hugsjónir en bjóða þess í stað upp á „praktískar lausnir“, skemmtilegheit og samtal. Átök hugmynda eru af hinu vonda.“
Ármann hélt því fram að sjálfstæðir og sterkir einstaklingar væru fáir á vettvangi stjórnmálanna. Undantekningalítið væri þingmönnum „tamast að feta troðna stigu, en hætta sé ekki út á ónumið land. Vekja þeir því hvorki áhuga né hrifningu á málefnum sínum eða sjálfum sér“. Og ekki var hann hrifinn af umræðum í þingsal sem ættu „líklega drjúgan þátt í þreytu manna og áhugaleysi á núverandi stjórnmálalífi enda málflutningur með þeim hætti, að hann þroskar ekki dómgreind manna til að greina mun á réttu og röngu“.
Síðar skrifaði Ármann: „Stórhugur, þróttur og hugsjónaauðgi þingmanna sýnist almennt ekki til skiptanna. Tök þeirra á viðfangsefnum líðandi stundar eru og ekki til að hafa fyrir öðrum. Tíminn flýgur, og nýir tímar krefjast nýrrar hugsunar og breyttra vinnubragða.“
Ármann gangrýndi valdasamþjöppun innan stjórnmálaflokkanna. Minni þátttaka flokksfólks í starfi þeirra hefði gert það að verkum að flokkarnir „hafa þrengst og veikst og orðið ófærari til að gegna því hlutverki að vera vettvangur fólksins“. Í huga Ármanns var þessi þróun áhyggjuefni því þar með hefði „meiður lýðræðisins því særst“ en „meiður flokksforysturæðis vaxið“.
Mikilvægi stjórnmálaflokka
Þrátt fyrir gagnrýni á stjórnmálaflokkana var Ármann sannfærður um mikilvægi þeirra: „Þar sem hlutverk stjórnmálasamtaka er að vera vettvangur borgaranna til skoðanaskipta, skoðana- og stefnumótunar, þá er lýðræðinu nauðsyn, að borgararnir, ekki síst unga fólkið, forðist þau ekki, heldur hafi þann metnað að frjóvga og endurnýja stefnu þeirra og starfshætti og stofna til nýrra samtaka, er verandi samtök fullnægja ekki kröfum þeirra.“
Þessi brýning Ármanns á sér samhljóm í boðskap Bjarna Benediktssonar eldri í ávarpi 17. júní 1969. Bjarni hvatti landsmenn til virkrar þátttöku í þjóðlífinu með þessum orðum: „Menn koma engu góðu til vegar, nema þeir séu sjálfir virkir þjóðfélagsþegnar, geri upp eigin hug, þori að hugsa sjálfstætt, fylgja hugsun sinni eftir og átti sig á því, að fátt næst fyrirhafnarlaust. Menn verða í senn að nenna að leggja á sig hugsun og vinnu, ef þeir í raun og veru vilja knýja fram þær umbætur, er löngun þeirra stendur til.“
Í viðtali við Morgunblaðið í tilefni af 75 ára afmæli Sjálfstæðisflokksins sagði Davíð Oddsson, þáverandi formaður, að flokkurinn væri ekki til fyrir sjálfan sig og „ef hann höfðar ekki til fólksins í landinu á hann engan tilverurétt“.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa því alltaf lagt ríka áherslu á að virkja almenning til þátttöku í þjóðmálum og ekki síst í starfi flokksins. Þeir hafa gert sér góða grein fyrir því að áhugaleysi um stjórnmál leiðir hægt og bítandi til þess að stjórnmálaflokkar veslast upp og deyja. En áhuginn kviknar ekki nema hugmyndafræðin sé skýr og kjósendur geti gert sér skýra grein fyrir því fyrir hverju er barist og af hverju.
Í aðdraganda alþingiskosninga í haust er ádrepa Ármanns Sveinssonar jafn nauðsynleg og fyrir 53 árum, ekki síst fyrir okkur sem berjumst undir merki Sjálfstæðisflokksins. En stjórnarandstaðan gæti einnig haft gott af því að lesa skrif Ármanns, sem lagði áherslu á að lýðræðinu væri það nauðsynlegt „að fleiri en eitt afl keppi um áhrif á vettvangi þjóðmálanna. Ónýt stjórnarandstaða í nærfellt áratug á sinn þátt í flokkspólitískri deyfð í landinu.“
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2021.