Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjorn:
Alger umbylting er að verða í samgöngum í heiminum. Líkt og þegar snjallsímar opnuðu nýjar víddir er snjallvæðing farartækja mikið framfaraskref. Á sama tíma eru orkuskiptin að verða hraðar en úrtölufólk taldi mögulegt. Tæknin opnar tækifæri: Steve Jobs í gær. Elon Musk í dag. Engin þjóð hefur betri möguleika á að nýta hreina orku í samgöngum en Íslendingar. Við ruddum brautina í orkuskiptum þegar við fórum úr kolakyndingu í hitaveitu fyrir tæpum hundrað árum. Það var mikið framfaraskref. Í vaxandi mæli nýtir almenningur sér hreina raforku til að komast á milli staða. Hjólreiðar af öllum gerðum eru í miklum vexti. Bæði hefðbundin hjól, rafmagnshjól og rafskútur. Þessi vinsæli og heilbrigði fararmáti er valkostur í borginni sem hefur sannað sig. Það er okkar hlutverk sem sitjum í borgarstjórn að tryggja sem best tækifærin sem felast í nýrri tækni.
Orð og efndir
Af og til koma upp hugmyndir um lestarsamgöngur, en ein slík var notuð til flutninga á grjóti í fyrri heimstyrjöldinni niður úr Öskjuhlíð. Hugmyndir um fluglest til Keflavíkur og „léttlestir“ í Reykjavík hafa ekki komist á flug. Á síðasta ári taldi formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur rétt að skoða enn og aftur lestarsamgöngur. Nú vegna kórónufaraldursins og loftslagsbreytinga. Vandinn við óraunhæfar hugmyndir eins og þessar er að þær tefja raunhæfar lausnir. Á sama tíma og verið er að kynna þunglamalega og rándýra útgáfu af borgarlínu er ekki til fjármagn til að kaupa nýja vagna fyrir Strætó. Hvað þá að bæta leiðakerfið! Á meðan umsamdar framkvæmdir á úrbótum við Bústaðaveg og Arnarnesveg eru látnar bíða er verið að lofa dýrum lausnum sem seint verða. Eða aldrei. Við sjálfstæðismenn styðjum samgöngur fyrir alla ferðamáta. Við greiddum atkvæði með því að auka tíðni strætó á helstu leiðum strax í upphafi þesa kjörtímabils. Þrátt fyrir samþykkt borgarstjórnar hefur þessi breyting ekki komið til framkvæmda. Og er ekki á dagskrá.
Bætum samgöngur
Nú þegar frumdrög að borgarlínu eru í kynningarferli hefur komið fram vel rökstudd gagnrýni á útfærsluna. Sú leið að taka akreinar úr almennri umferð undir sérrými borgarlínu hefur mætt mikilli andstöðu, enda myndi slík ráðstöfun þrengja að umferð þvert á vilja Alþingis og þvert á skilning íbúa. Það er því einboðið að útfærslan verði endurskoðuð. Bent hefur verið á að unnt er að koma upp hraðvagnakerfi sem er hagkvæmara en þung borgarlína, tekur ekki akreinar frá almennri umferð og kæmi mun fyrr til framkvæmda. Því ekki að skoða slíkar lausnir? Þá hafa komið fram efasemdir um að stórir vagnar séu lausn framtíðarinnar. Einstaklingsmiðuð þjónusta er leiðarstef samtímans. Stórir vagnar fyrir 160 manns kunna að henta vel í fjölmennum borgum Asíu og Suður-Ameríku, en í Reykjavík er það tíðni ferða, áreiðanleiki og það að komast alla leið sem skiptir öllu máli. Þá orkar kostnaður upp á hundrað milljarða tvímælis þegar ávinningurinn er óljós. Flestir vita að unnt er að stórminnka umferðartafir í Reykjavík með því að snjallvæða umferðarljósin. Það er arðbær fjárfesting. Sama er að segja um þyngstu og slysamestu gatnamótin. Svo ekki sé minnst á Sundabraut sem er sjálfbær framkvæmd. Það er ótrúverðugt að lofa risaframkvæmdum sem ekki eru fjármagnaðar en vanrækja á sama tíma lágmarksþjónustu Strætó. Efna ekki eigin samþykktir. Lausnin er að nýta tæknina og horfa raunsætt til framtíðar. Þannig komumst við alla leið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. mars 2021.