Vilhjálmur Árnason, alþingismaður:
Eins og þúsundir Íslendinga hef ég gert mér ferð að gosstöðvunum í Geldingadal. Tvívegis. Hvílíkt sjónarspil sem blasir þar við öllum. Það er engu líkara en almættið hafi búið til fyrir okkur eldgosasýningarsal þar sem gestir geta virt fyrir sér ægikrafta náttúrunnar úr öruggri fjarlægð. Stríður straumur fólks er á þessar slóðir að nóttu sem degi og ekkert lát þar á.
Reykjanesskaginn allur er eitt samfellt náttúruundur og hefur því miður verið vanmetinn sem slíkur. Þar ganga flekaskil tveggja heimsálfa á land, þar er Gunnuhver krúndjásnið á kröftugu hverasvæði, heilsulindin Bláa Lónið er einn vinsælasti ferðamannastaður landins, Reykjanesviti býður upp á einstakt útsýni til allra átta, Kleifarvatn er rammað inn í glæsilegan fjallasal og í Krísuvík stíga gufustrókar hátt til himins. Á dimmum vetrarnóttum dansa norðurljósin á stjörnubjörtum himni og ekki má gleyma kónginum Keili sem hefur um aldir vakað yfir skaganum öllum. Og nú hefur eldgosið í Geldingadal gefið af sér einstakt sóknarfæri sem við höfum ekki séð í 800 ár. Sóknarfæri til að nýta betur tækifærin sem leynast í allra augsýn á Reykjanesi.
Við getum gert svo miklu, miklu betur í ferðaþjónustu á svæðinu, samhæft og samtengt upplifanir. Jarðsagan, náttúruperlurnar og útivistin í bland við verslun og þjónustu gefa okkur sem byggjum þetta svæði dauðafæri. Ímyndið ykkur bara upplifun ferðamanna sem sjá eldrautt eldgosið í Geldingadal og hvíla svo lúin bein í himinbláu lóninu eftir göngu sem er eins og í landslagi tunglsins. Snæða ferskan fisk úr Faxaflóanum, fara í rómantíska göngu á Garðskaga og gista á einu af glæsihótelum svæðisins. Hugmyndaauðgi markaðs- og athafnafólks ætti að vera takmarkalaus þegar Reykjanesið er annars vegar.
Reykjanesskaginn skal nú hafinn til vegs og virðingar. Við stjórnmálamenn verðum að ýta undir atvinnusköpun þar á sviði ferðaþjónustu og gæta þess um leið að vernda og varðveita svæðið. Látum ekki myrkur heimsfaraldurs villa okkur sýn því dagur er ætíð nóttu nálægur. Við höfum skýra framtíðarsýn. Landið rís á Reykjanesi. Þar hefst sóknin.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. mars 2021.