Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Við stöndum í einni dýpstu kreppu í heila öld. Síðustu mánuði hafa tugir milljarða runnið í að styðja við þúsundir einstaklinga og fyrirtækja. Á sama tíma og tekjur ríkisins hafa hrunið og útgjöld aukist höfum við lækkað skatta á fólk og fyrirtæki, með tilheyrandi halla á ríkissjóði.
Þó þetta samspil kunni að koma spánskt fyrir sjónir er hallinn ekki tapað fé.
Í gær, rúmu ári eftir að aldan skall á, kynntum við fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Þar birtist skýr saga til vitnis um að viðbrögðin voru rétt.
Innlend framleiðsla og þjónusta gengur vel og þrátt fyrir allt sem á undan er gengið jukust ráðstöfunartekjur heimilanna í fyrra. Okkur tókst það sem lagt var upp með; að standa með heimilunum og halda lífsneistanum í fyrirtækjum.
Auk kraftsins í íslensku þjóðinni má nefna tvær ástæður þess hve vel hefur gengið. Traustur grunnur og trúverðug áætlun.
Við bjuggum að skynsemi í ríkisrekstrinum síðustu ár og gátum brugðist við af krafti. Við lögðum fljótt upp skýra og raunhæfa áætlun, sem endurspeglast meðal annars í betri lánakjörum íslenska ríkisins en áður hafa sést.
Hins vegar er mikilvægt að lántökur séu ekki upphaf og endir alls, eins og sumir boða. Lán þarf að endurgreiða og vextir geta hækkað. Áætlunin nú gerir ráð fyrir mun minni skuldsetningu og 135 milljörðum betri afkomu ríkissjóðs árin 2020- 2025 en útlit var fyrir í fyrra. Vart þarf að nefna hve miklu slíkar upphæðir skipta fyrir íslensku þjóðina.
Stærsta verkefnið fram undan er að vinna bug á atvinnuleysinu. Það gengur best með öflugu atvinnulífi sem getur staðið á eigin fótum. Við ætlum að tryggja fyrirtækjum súrefni og komast sem fyrst úr umhverfi takmarkana og ríkisstyrkja.
Það styttist í tíma uppbyggingar og sterkara Íslands. Við höfum góða sögu að segja og næstu kaflar verða enn betri.
Greinin birtist á visir.is 23. mars 2021.