Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðifslokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:
Ef ég ætti að lýsa minni pólitísku sýn í fjórum orðum væru þau þessi: „Ísland verði land tækifæranna.“ Lykilatriði í þeirri sýn er að hún takmarkast ekki við höfuðborgarsvæðið heldur nær til landsins alls.
Vanmetið framlag landsbyggðarinnar
Flest skiljum við gildi þess að blómleg byggð sé um allt landið. Það eykur lífsgæði allra Íslendinga, hvar sem þeir búa.
Þeir eru þó til sem amast við viðleitni stjórnmálamanna til að tryggja jöfn tækifæri um allt land með öflugum innviðum og öðrum aðgerðum. Sú afstaða byggist líklega fyrst og fremst á því að viðkomandi sé ósammála þorra þjóðarinnar um gildi þess að hafa blómlega byggð í landinu. Því gildismati verður sennilega seint breytt með rómantískum tilfinningarökum en það má líka prófa að horfa kalt á málið.
Og þegar við gerum það sjáum við að landsbyggðin hefur skapað verðmæti og lífskjör í þágu allrar þjóðarinnar langt umfram það sem fram kemur í þröngsýnni og takmarkaðri athugun á opinberum hagtölum.
Það þarf ekki annað en að horfa á þrjár stærstu útflutningsgreinar okkar, sem ráða algjörum úrslitum um lífskjör á Íslandi. Fiskimiðin eru allt í kringum landið og eru sameign allrar þjóðarinnar. Náttúran sem laðar flesta ferðamenn hingað er aðallega utan höfuðborgarsvæðisins. Og raforkan sem er undirstaða stóriðju verður að mestu leyti til á hálendinu. Að ógleymdri matvælaframleiðslunni sem tryggir okkur framúrskarandi afurðir.
Þegar af þessari ástæðu getum við sagt með vissu að framlag landsbyggðarinnar til verðmætasköpunar og lífsgæða er vanmetið í þeim takmörkuðu tölum sem við horfum oftast á.
Það eru því ekki bara mjúk og rómantísk tilfinningarök sem mæla með því að við tryggjum jöfn tækifæri um allt land heldur líka, og kannski fyrst og fremst, ísköld efnahags- og sanngirnissjónarmið.
Ég upplifi nánast á hverjum degi sem þingmaður og ráðherra að krafturinn, hugvitið, þrautseigjan, hugmyndaauðgin, nýsköpunarhugsunin og frumkvöðlahugarfarið á landsbyggðinni gefur höfuðborgarsvæðinu auðvitað ekkert eftir. Þessum kröftum þarf að veita brautargengi og það er ákvörðun.
Árangur í verki
Ég er stolt af því að hafa fengið tækifæri til þess sem ráðherra að stuðla að jafnari aðstöðu og tækifærum landsbyggðarinnar.
Dæmi um það eru stofnun 100 milljóna króna nýsköpunarsjóðs landsbyggðarinnar („Lóu“); full jöfnun flutningskostnaðar raforku frá og með næsta hausti; átak til að flýta bæði jarðstrengjavæðingu og þrífösun rafmagns; lagafrumvarp sem stuðlar að lækkun raforkukostnaðar með breyttum gjalskrárforsendum dreifiveitna; aukin framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða; markaðsstofur landshlutanna efldar og þeim breytt í áfangastaðastofur; verkefnið „Græni dregillinn“ sem miðar að einföldun grænna fjárfestinga og stofnun grænna iðngarða, t.d. á Bakka og víðar; aukinn stuðningur við stafrænar smiðjur (Fab-Labs) víðsvegar um landið; fjárstuðningur við athugun á fjölnýtingu auðlindastrauma á Grundartanga; aukið fjármagn til framleiðslustyrkja í kvikmyndagerð sem oft renna að stórum hluta til þjónustufyrirtækja á landsbyggðinni, og þannig mætti áfram telja.
Þó að töluvert hafi áunnist er enn verk að vinna, ekki síst í samgöngumálum, en líka öðrum innviðum og opinberu stuðningskerfi á mörgum sviðum.
Tækifærin til sóknar eru mörg. Ferðaþjónustan er sjálfsprottin byggðaaðgerð og viðspyrna hennar mun því skipta landsbyggðina gríðarlegu máli. Orkuskipti og græn framtíð munu líka skapa ný atvinnutækifæri á landsbyggðinni, en það þarf að stuðla að því og það vil ég gera.
Síðast en ekki síst þurfum við að breyta umræðunni og auka samstöðu um þessi jákvæðu og skynsamlegu markmið.
Sama mætti segja um Ísland allt
Fyrst minnst er á að breyta umræðunni gætum við hér tekið einn lokasnúning gegn rökum þeirra sem amast við því að ríkið beiti sér fyrir því að landsbyggðin sé samkeppnishæf við suðvesturhornið. Þeir hinir sömu sjá nefnilega margir hverjir ekkert athugavert við að ríkið beiti sér fyrir því að Ísland – litla Ísland – sé samkeppnishæft við aðrar þjóðir á sem flestum sviðum.
Er það ekki mótsögn?
Það væri til dæmis hægt að segja: „Ef nýsköpun, rannsóknir og þróun þrífast ekki á Íslandi án stuðnings frá hinu opinbera, þá verður bara að hafa það; látum frumkvöðlana bara flytja sín verkefni til útlanda.“ – En við segjum það ekki, heldur beitum ríkinu af krafti til að tryggja alþjóðlega samkeppnishæft umhverfi á Íslandi fyrir nýsköpun, rannsóknir og þróun.
Það sama mætti segja um fleiri svið og alltaf er svar okkar hið sama: Við ætlum að tryggja samkeppnishæfni Íslands gagnvart öðrum þjóðum.
Svarið er þess vegna augljóst þegar sumir spyrja: „Ef landsbyggðin er ekki samkeppnishæf við suðvesturhornið, verður fólkið þá ekki bara að flytja suður?“
Svarið er mjög afdráttarlaust: Nei, auðvitað ekki. Ekki frekar en við sættum okkur við að Ísland sé ekki samkeppnishæft gagnvart öðrum þjóðum. Með sömu rökum og við beitum okkur fyrir því að Ísland sé samkeppnishæft ætlum við að tryggja tækifæri um allt Ísland.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 21. mars 2021.