Áslaug Arna Sigurbjörndóttir, dómsmálaráðherra:
Skipulögð brotastarfsemi hefur verið að færast í aukana hér á landi á síðustu árum. Við því þarf að bregðast. Að mati lögreglunnar eru nú starfandi 15 hópar í landinu sem má flokka sem skipulagða brotahópa. Margir þeirra stunda löglegan rekstur af ýmsu tagi samhliða lögbrotunum. Löglega starfsemin er þá nýtt til að þvætta fjármuni eða til að stuðla að frekari glæpum. Hóparnir eru af ýmsu þjóðerni og starfa flestir bæði innanlands og utan.
Á allra síðustu árum hefur verulegum fjármunum verið varið til lögreglunnar til að bregðast við þessari ógn. Miklar framfarir hafa einnig orðið á lagaumgjörð og framkvæmd í tengslum við aðgerðir gegn peningaþvætti, sem er órjúfanlegur hluti hvers kyns glæpastarfsemi. Síðastliðið haust fól ég ríkislögreglustjóra að efla samstarf og samhæfingu innan lögreglu í því skyni að vinna markvisst gegn skipulagðri brotastarfsemi. Nauðsynlegt er að samnýta mannafla og búnað lögregluembættanna og auka skilvirkni á þessu sviði. Íslenska lögreglan þarf að hafa getu og þekkingu til að takast á við umfangsmikil, flókin og þaulskipulögð mál.
Sérstakur stýrihópur hefur unnið ötullega undanfarna mánuði að samhæfingu aðgerða, auknu samstarfi á milli lögregluembætta, alþjóðlegri samvinnu og gagnkvæmu samstarfi við önnur stjórnvöld og stofnanir. Í stýrihópnum sitja fulltrúar stærstu lögregluembættanna sem hafa skuldbundið sig til að setja málaflokkinn í forgang og verja til þess nauðsynlegum mannafla og búnaði. Þá hefur ríkislögreglustjóri sett verklagsreglur um samvinnu og samstarf lögreglu um aðgerðir gegn skipulagðri brotastarfsemi. Loks má nefna að 350 milljónum króna hefur verið ráðstafað í sérstakan löggæslusjóð til að efla lögregluna í aðgerðum gegn skipulagðri brotastarfsemi. Lögreglan hefur nú þegar greint ítarlega og forgangsraðað þörf fyrir ýmsan búnað til að standa eins vel og kostur er að slíkum rannsóknum.
Framangreint samstarf er einn liður í þeirri stefnumörkun sem lá að baki stofnunar lögregluráðs sem ég lagði áherslu á að yrði sett á fót í upphafi síðasta árs. Það felur í sér að lögreglan í landinu komi í auknum mæli fram sem ein samhæfð liðsheild. Undir forystu ríkislögreglustjóra fundar ráðið nú reglulega um mál lögreglunnar.
Brýnt er að íslenska lögreglan – og í raun íslenska réttarkerfið – hafi burði, getu og þekkingu til að takast á við þau flóknu verkefni sem við blasa í harðnandi heimi skipulagðrar glæpastarfsemi. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og eftir tilvikum flókin. Þetta er verkefni sem verður að nálgast af alvöru og festu, það er það sem við erum að gera – ekki aðeins til skemmri tíma heldur einnig þegar til lengri tíma er litið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 26. febrúar 2021.