Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
Hve lengi ætlar ríkisstjórnin að láta meirihlutann í Reykjavík teyma sig á asnaeyrunum?
Nú hefur samgönguráðherra tilkynnt að framkvæmdir við mislæg gatnamót á Reykjanesbraut við Bústaðaveg, hættulegustu og slysamestu gatnamót í Reykjavík, verði ekki hafnar á árinu 2021 eins og samgöngusáttmálinn, sem undirritaður var í september 2019 og m.a. samgönguráðherra, fjármálaráðherra og borgarstjóri undirrituðu við mikil fagnaðarlæti, heldur verði það ekki fyrr en árið 2025. Engar aðgerðir næstu fjögur ár við þessi hættulegustu gatnamót borgarinnar.
Í yfirlýsingu sinni minntist ráðherra ekki einu orði á borgarlínu og þá tugmilljarða króna sem á að eyða í þá framkvæmd á næstu mánuðum og árum. Þar er verið að leggja í vegferð upp á 150-200 milljarða króna, sem aðallega Reykjavíkurborg, ríkissjóður og bíleigendur bera kostnað af. Það ævintýri virðist eiga að halda áfram athugasemdalaust.
Er ekki nóg komið af aðgerðarleysi í mikilvægum samgöngubótum í Reykjavík? Eða er það ætlunin að kostnaður við borgarlínu hafi forgang en aðrar samgöngubætur verði látnar mæta afgangi.
Borgarlínufarsi meirihlutans á greinilega eftir að halda áfram gagnrýnislaust af hálfu ríkisins, en stór hluti af kostnaði við þá framkvæmd verður greiddur af ríkinu og flestum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, auk fyrirhugaðra veggjalda á bifreiðaeigendur.
Ekkert aðhafst í skipulagningu
Á tímabilinu 2019-2021 hafði meirihlutinn í Reykjavik nægan tíma til að gera nauðsynlegar ráðstafanir í skipulagi mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut við Bústaðaveg, en aðhafðist nánast ekkert í þeim efnum. Enda liggur fyrir að núverandi meirihluti í Reykjavík er andvígur mislægum gatnamótum þarna.Þessi afstaða og vinnubrögð meirihlutans í samgöngumálum borgarinnar eru síður en svo með öryggi og hagsmuni tugþúsunda bíleiganda í Reykjavík í huga. Markmið meirihlutans virðist vera að gera bíleigendum eins erfitt fyrir og kostur er.
Nauðsynlegt er að samgönguráðherra geri nánari grein fyrir þeirri ákvörðun sinni að fresta framkvæmdum við byggingu mislægra gatnamóta á Reykjanesbraut við Bústaðaveg um fjögur ár.
Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. febrúar 2021.