Bryndís Haraldsdóttir, alþingismaður:
Álag á samgöngukerfið á Íslandi hefur aukist mikið á síðasta áratug eða svo, tvær milljónir ferðamanna fóru um þjóðvegi landsins og við heimamenn vorum duglegir að ferðast og fara á milli staða. Því miður fylgdi nauðsynlegt fjármagn til vegamála ekki í kjölfarið og þrátt fyrir mikla innspýtingu á síðustu árum þá eigum við enn langt í land með að tryggja öryggi á þjóðvegum landsins. Þá eru eftir nauðsynlegar framkvæmdir á samgöngumálum hér á höfuðborgarsvæðinu, svæði sem tekjur jú á móti öllum ferðamönnunum og þar sem búist er við mestri íbúafjölgun eða um 70 þúsund fram til ársins 2040. Höfuðborgarsvæðið hafði orðið eftir í umræðu um samgönguuppbyggingu, einblínt var á þjóðvegi, brýr og göng á landsbyggðinni. Sannarlega allt þörf verkefni, en höfuðborgarsvæðið má ekki gleymast. Á árunum 2007-2017 fóru einungis 17% af öllu nýframkvæmdafé til höfuðborgarsvæðisins, sem er allt of lítið. Góðu fréttirnar eru þær að á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að greina hvar helstu stíflurnar eru í umferðarflæðinu okkar. Sérfræðingar hafa greint öll gatnamót, flæði umferðar, skipulags- og uppbyggingaráætlanir og nú er til heildstæð áætlun um hvernig á að bæta úr. Þessi heildaráætlun birtist í höfuðborgarsáttmálanum sem undirritaður hefur verið af öllum sveitarfélögunum og ríkinu. Hann tryggir að á næstu árum renni mun meira fé til framkvæmda á höfuðborgarsvæðinu og kominn tími til. Lykillinn að þessum árangri er vönduð og góð undirbúningsvinna bæði hjá ríki og sveitarfélögunum á svæðinu. Fyrirtækinu Betri samgöngum hefur verið falið að halda utan um framkvæmd verkefnis og útfæra sáttmála í raunverulegum mannvirkjum, bæði stofnvegaframkvæmdum, borgarlínu svo og göngu- og hjólreiðastígum. Nú reynir á að allir standi við sitt svo hægt sé að ferðast um svæðið með öruggum og greiðum hætti á fjölbreyttan hátt þannig að raunverulegt frelsi í samgöngum sé til staðar.
Sundabraut er mikilvæg
Sundabraut er ekki hluti af höfuðborgarsáttmálanum en er engu að síður mikilvæg samgöngubót bæði fyrir höfuðborgarsvæðið en líka fyrir landsbyggðina.
Sundabraut styttir vegalengd milli Kjalarness og miðborgar og bætir umferðaraðgengi frá Vestur- og Norðurlandi að borginni. Þá léttir Sundabraut á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ. Sundabraut sparar akstur og þungaflutninga og mun þannig spara kolefnisútblástur. Sundabraut er mikilvæg tenging við gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins. Með Sundabraut felst bætt tenging Grafarvogshverfis við gatnakerfi borgarinnar og töluvert myndi draga úr álagi um Ártúnsbrekku. Þá er mikilvægt út frá almannavarnasjónarmiðum að fjölga tengingum út úr borginni.
Einkaframkvæmd er eina lausnin
Kostnaður við Sundabraut er áætlaður á bilinu 70-80 milljarðar. Til samanburðar var allt nýframkvæmda- og viðhaldsfé Vegagerðarinnar á landinu öllu á 10 ára tímabili 2007-2017 á verðlagi ársins 2018 um 160 milljarðar, eða eins og tvær Sundabrautir. Fjárfestingar í vegum og samgöngumannvirkjum hafa sem betur fer aukist á síðustu árum. Heildarframlög til Vegagerðarinnar hafa farið úr um 25 milljörðum í 30 milljarða, en þar eru bæði innviðir í flugi, siglingum og vegakerfi. Það er því algjörlega óraunhæft að ætla að hægt sé að taka 70-80 milljarða, til að leggja Sundabraut, úr ríkissjóði. Það myndi kalla á að ekkert annað yrði gert í viðhaldi eða uppbyggingu samgöngumannvirkja annars staðar á landinu nú eða að fjármagn til þess málaflokks yrði tekið úr öðrum mikilvægum málaflokkum eins og heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslu o.s.frv. Hér þarf einfaldlega aðrar lausnir. Í mörg ár hefur verið bent á möguleika á samstarfsverkefni einkaaðila og hins opinbera, svokölluð PPP-verkefni, og eru Hvalfjarðargöng besta dæmið um slíkt hér á landi.
Ég lagði ásamt nokkrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram þingsályktun þar sem lagt er til að Sundabraut verði boðin út í einkaframkvæmd.
Áhugasamir hópar geta þá komið með sína útfærslu af legu, aðferðafræði, hönnun, fjármögnun og rekstri. Viðkomandi hefðu heimild til að rukka veggjöld í ákveðinn tíma, en að þeim tíma liðnum yrði mannvirkið ríkisins.
Ég er sannfærð um að þetta sé raunhæf leið til að sjá Sundabraut verða að veruleika. Ég tel að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar sem horfa til lengri tíma telji Sundabraut arðbæran og álitlegan fjárfestingakost. Látum á það reyna og könnum hvort einkaframtakið hafi burði í að reisa Sundabraut. Framkvæmdina sem rifist hefur verið um í hátt í 50 ár.
Við höfum engu að tapa en allt að vinna.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2021.