„Það frumvarp sem hér er lagt fram felur í sér mikla framför í frelsisátt. Við eigum að treysta fólki til að taka ákvarðanir um eigið líf og það þurfa að vera afar sérstök rök fyrir því að skerða valfrelsi almennings í þessum málum sem og öðrum. Frumvarpið tryggir aukið jafnræði og er lyftistöng fyrir lítil samfélög. Almennt tel ég að ríkisvaldið eigi að einbeita sér að öðru en að hamla innlendum aðilum að standa í eðlilegum viðskiptum,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra sem í kvöld mælti fyrir frumvarpi sínu um breytingar á áfengislögum.
Í frumvarpinu er minni brugghúsum veitt leyfi til sölu áfengs öls á framleiðslustað. Hins vegar er þar ekki veitt heimild til innlendrar netverslunar með vín í smásölu, líkt og upphafleg drög frumvarpsins gerðu ráð fyrir þar sem það ákvæði náði ekki í gegnum ríkisstjórn.
Breytingin mun styrkja rekstur smærri brugghúsa, sérstaklega á landsbyggðinni, sem eiga erfitt með að koma vörum sínum að í ÁTVR. Áfram gilda strangar reglur um leyfisveitingu og eftirlit og sveitarstjórnir munu hafa ákvörðunarvald um hvort smásala á framleiðslustað fari fram innan sveitarfélagsins.
Frumvarpið tekur mið af sjónarmiðum þeirra sem vilja aukið frjálsræði í verslun með áfengi sem og þeirra sem kjósa aðhaldssama áfengisstefnu. Það felur ekki í sér tillögur um breytingu á áfengisstefnu eða breyttum áherslum í lýðheilsumálum.
Þegar þetta er skrifað stendur 1. umræða um málið yfir á Alþingi en það fer að lokinni umræðu til þingnefndar.