Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Enginn einn einstaklingur né fámennir hópar búa yfir öllum sannleikanum um hið ákjósanlegasta skipulag þéttbýlis. Samt hafa á öllum tímum verið til einstaklingar og hópar sem telja sig hafa höndlað þennan sannleika. Það sem þeir eiga sameiginlegt er skeytingarleysi um hagsmuni og viðhorf annarra og skortur á hógværð og sjálfsgagnrýni. Þeir hunsa jafnvel sérfræðileg álit og vísindalegar niðurstöður.
Þróun borga er samvinna og málamiðlun
Allur sannleikurinn í þessum efnum er ekki og verður aldrei til. En við getum dregið úr skipulagsslysum og alvarlegri umhverfisröskun með því viðhorfi að þróun borga hljóti á endanum að endurspegla málamiðlun ólíkra skoðana og hagsmuna og að sífellt fleiri eigi að koma að slíkum ákvörðunum, ekki síst vísindaleg og sérfræðileg álit og niðurstöður. Borgaryfirvöld Reykjavíkur virðast því miður vera á öðru máli. Þau hafa ítrekað reynt að sniðganga vísindalegar og sérfræðilegar niðurstöður ef þær raska ásetningi þeirra.
Gott dæmi um þetta er fyrirhuguð íbúðabyggð í Skerjafirði en deiliskipulag hennar var samþykkt í skipulagsráði 10. febrúar sl. Í dag á svo að samþykkja í borgarstjórn breytingu við aðalskipulag fyrir þessa byggð. Það samþykki verður augljóst brot á samningi ríkis og borgar um að tryggja rekstraröryggi flugvallarins næstu fimmtán árin. Auk þess verður það samþykki gott dæmi um skeytingarleysi meirihluta borgarstjórnar við veigamiklum athugasemdum við þetta skipulag frá átta opinberum stofnunum. Hugum að örfáum þessara athugasemda.
Isavia-skýrslu um flugöryggi stungið undir stól
Vegna þessarar fyrirhuguðu byggðar fékk Isavia hollensku loft- og geimferðastofnunina til að rannsaka áhrif nýrrar byggðar á vindafar á Reykjavíkurflugvelli. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar mun þessi nýja byggð draga úr flugöryggi á vellinum. Því þyrfti að vinna sérstakt áhættumat í þessu tilviki. Þessar niðurstöður voru sendar skipulagssviði borgarinnar á miðju síðasta sumri en þar var þeim stungið undir stól. Það var ekki fyrr en daginn eftir að skipulagsráð hafði samþykkt deiliskipulagið, að borgarfulltrúar lásu um það í Morgunblaðinu að niðurstaðan lægi fyrir og hver hún væri. Áhættumatinu er hins vegar ekki lokið.
Samgöngustofa
Í umsögn Samgöngustofu áréttar hún: „Nauðsyn þess og skyldu að tryggja að flugöryggi við notkun flugvallarins skerðist ekki og vill benda sérstaklega á eftirfarandi atriði: Flugvöllur þarf skv. alþjóðlegum skuldbindingum að uppfylla viðeigandi lög og reglur þ.m.t: EB nr. 216/2008 hvar fram kemur: 9. gr.: vöktun flugvallarumhverfis. Aðildarríki skulu tryggja að samráð fari fram að því er varðar starfsemi manna og landnotkun s.s. a) hvers konar byggingarstarfsemi eða breytingu á landnotkun á flugvallarsvæðinu, b) hvers konar byggingarstarfsemi, sem getur valdið því að hindranir valdi ókyrrð í lofti, sem getur verið hættuleg starfrækslu loftfara. Því er ekki hægt að heimila breytingar eða aðgerðir sem rýra öryggi flugvallarins.“
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur
Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hefur gert fjölmargar alvarlegar athugasemdir, m.a. um olíumengaðan jarðveg á svæðinu þar sem reisa á skóla. Auk þess telur stofnunin að íbúðir næst flugbraut nái ekki lágmarksskilyrðum hljóðvistar og verði því að vera án opnanlegra glugga. Þeirri tilhögun verði þá að þinglýsa á þessar íbúðir.
Náttúrufræðistofnun
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar eru gerðar alvarlegar athugasemdir um fyrirhugaða landfyllingu skipulagsins enda standi til að friðlýsa strandlengju Skerjafjarðar í samræmi við samþykkt Alþingis frá 2004. Þá segir þar enn fremur: „Náttúra Skerjafjarðar á ekki að gjalda fyrir að ástæða þyki til þess að skipuleggja byggð við fjörðinn eða á flugvallarsvæðinu.“
Hafrannsóknastofnun, Umhverfisstofnun og Skipulagsstofnun ríkisins gera einnig athugasemdir við landfyllingu. Hér er ekki rúm til að rekja allar þær ábendingar en í umsögn Skipulagsstofnunar ríkisins segir m.a.: „Þótt í breytingatillögunni sé gert ráð fyrir að dregið verði úr umfangi fyrirhugaðrar landfyllingar mun hún engu að síður valda skerðingu á fjöru sem talin er hafa hátt verndargildi og er ein af fáum náttúrulegum fjörum sem eftir eru í Reykjavík.“ Þá má geta þess að Umhverfisstofnun vinnur nú að umhverfismati skipulagsins sem enn er ekki lokið.
Vegagerðin
Vegagerðin bendir á að skoða þurfi áhrif aukinnar umferðar á nærliggjandi stofnvegi, s.s. Suðurgötu, Hringbraut og Njarðargötu, þar sem umferðarþungi er þegar orðinn of mikill. Þá er mælst til þess að fram fari heildrænt samgöngumat en það hefur ekki farið fram og er því enn ólokið.
Það eru viðsjárverð yfirvöld sem brjóta samninga, stinga skýrslu um flugöryggi undir stól, sjá ekki ástæðu til að bíða eftir niðurstöðu mikilvægra rannsókna og telja sig óbundin af þeim athugasemdum og gagnrýni opinberra stofnana og fagaðila sem hér hefur verið drepið á.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. febrúar 2021.