Teitur Björn Einarsson, varaþingmaður:
Ég var ekki fæddur þegar fyrst var farið að hreyfa við hugmyndinni um Sundabraut um miðbik áttunda áratugar síðustu aldar. Það er óþægilega langt síðan! Enn er beðið eftir framkvæmdum og skiljanlega er fólk orðið langeygt eftir að alvöru hreyfing komist á málið. Á því verður nú vonandi breyting.
Síðasta skýrslan um Sundabraut, nú líka Sundabrú, leit vonandi dagsins ljós í dag, 3. febrúar, þegar starfshópur á vegum samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skilaði skýrslu um málið. Niðurstaða hópsins er að Sundabrú sé hagkvæmari kostur en jarðgöng fyrir legu Sundabrautar og framkvæmdir geta hafist eftir um fjögur ár. Full ástæða er til að fagna að þessum áfanga hafi verið náð og um niðurstöðu starfshópsins ætti að nást breið samstaða.
Kostir Sundabrautar eru margir og óþarfi að hafa um þá alla langt mál. Sundabraut styttir veglengd milli Kjalarness og miðborgar Reykjavíkur, léttir á umferð um Vesturlandsveg í gegnum Mosfellsbæ og eflir þannig tengingu milli Vestur- og Norðurlands við höfuðborgarsvæðið svo um munar, bætir umferðaraðgengi og stuðlar að greiðari og öruggari umferð fólks og vöruflutningum. Út frá hagsmunum íbúa Vestur- og Norðurlands er lagning Sundabrautar bæði stærsta einstaka vegaframkvæmdin og sú þýðingarmesta sem hrinda verður af stokkunum á allra næstu árum.
Sundabraut er líka ein dýrasta framkvæmd í vegakerfinu sem raunhæft er að ráðast í en hún er um leið jafnframt þjóðhagslega arðbær og skynsamleg ef rétt er staðið að málum. Orð seðlabankastjóra um mikilvægi framkvæmdarinnar síðast liðið haust vitna um það. Hörð viðbrögð og gagnrýni á þau orð frá fulltrúum núverandi borgarstjórnarmeirihluta drógu það líka skýrt fram hvar hnífurinn hefur helst staðið í kúnni. Þrátt fyrir að Sundabraut hefur verið í skipulagsáætlunum Reykjavíkurborgar í nokkra áratugi hefur borgarstjóri og borgarstjórnarmeirihlutinn sýnt af sér fádæma tómlæti og ábyrgðarleysi við að greiða götur framkvæmdarinnar. Vonandi er nú komið annað hljóð í skrokkinn.
Í nóvember síðastliðnum lagði Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður, ásamt fjórum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fram merkilega þingsályktunartillögu fyrir þingið. Tillagan kveður á um það að framkvæmd Sundabrautar verði samvinnuverkefni (e. public-private-partnership) ríkis og einkaaðila þannig að einkaaðila verði falið að annast að öllu leyti fjármögnun, undirbúning og framkvæmdir við Sundabraut, sem og rekstur um tiltekinn tíma með innheimtu veggjalda. Að þeim tíma liðnum myndi ríkið taka við sem veghaldari Sundabrautar.
Samvinnuverkefni ríkis og einkaaðila er raunhæfasta og skynsamlegasta leiðin sem hægt er að fara ef ætlunin er að Sundabraut verði að veruleika innan áratugarins. Niðurstaða starfshóps ráðherra nú og skýrir kostir samvinnuverkefnis vekja réttmætar væntingar um að biðin eftir Sundbraut sé senn á enda. Sjálfstæðisflokkurinn mun nú sem fyrr styðja við verkefnið.
Greinin birtist á vef Skessuhorns 3. febrúar 2021.