Bryndís Haraldsdóttir og Njáll Trausti Friðbertsson alþingismenn:
Fyrir áramót birtist grein eftir okkur þar sem við ræddum um netógnina og hvernig hún grefur undan lýðræðisþjóðfélögum, s.s. með árásum á lykilstofnanir. Þar greindum við frá því að fyrir ári lögðum við ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins fram beiðni um skýrslu frá forsætisráðherra um innviði og þjóðaröryggi. Skýrslan hefur nú litið dagsins ljós og er yfirgripsmikil enda unnin á vettvangi allra ráðuneyta.
Í skýrslunni er fjallað um framþróun í netöryggismálum og þar kemur fram að litið sé svo á að „öryggi, viðnámsþróttur og áreiðanleiki net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða skipti sköpum fyrir efnahagslega og samfélagslega starfsemi, svo og trúverðugleika þjónustunnar sem um ræðir, innanlands sem erlendis“. Þar er líka fjallað um nýlega löggjöf um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða en þar er m.a. kveðið á um netöryggisráð sem fylgir stefnu stjórnvalda í net- og upplýsingaöryggismálum og þar verður lagt mat á stöðu netöryggis á hverjum tíma. Þar verður um að ræða vettvang upplýsingamiðlunar og samhæfingar. Af skýrslunni má greinar að mikilvæg skref hafa verið stigin á lengri leið til að tryggja netöryggi þjóðarinnar.
Á ríkið að hafa skipulagsvald vegna þjóðaröryggis?
Í skýrslubeiðninni óskuðum við þingmenn Sjálfstæðisflokksins eftir umfjöllun um það hvort íslenska ríkið ætti með almennum hætti að fara með skipulagsvald vegna helstu grunninnviða landsins á grundvelli þjóðaröryggis. Í umfjöllun skýrslunnar er vísað í niðurstöður átakshóps um úrbætur á innviðum þar sem segir að einfalda þurfi ferli vegna undirbúnings framkvæmda við flutningskerfi raforku, þar sem einstaka þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir hafi tekið langan tíma í stjórnsýslumeðferð. Í þessum tilgangi leggur átakshópurinn til að lögfest verði heimild til að taka sameiginlega skipulagsákvörðun þvert á sveitarfélagamörk vegna framkvæmda í flutningskerfi raforku. Það verði gert þannig að lögfest verði heimild til að skipa sérstaka stjórnsýslunefnd, sjálfstætt stjórnvald, með meðal annars fulltrúum þeirra sveitarfélaga sem viðkomandi raflína mun liggja um. Nú er unnið að gerð frumvarps á grunni þessara tillagna.
Þetta er mikið fagnaðarefni. Að sjálfsögðu er áfram viðurkennt að höfuðábyrgð á framkvæmd skipulagsmála liggi almennt hjá sveitarfélögum en um leið áréttað að ríkisvaldið geti farið með almenna stefnumótun í skipulagsmálum og ábyrgð eftir atvikum á skipulagsgerð fyrir landshluta. Vísað er til þess að í nágrannalöndum okkar, eins og Danmörku og Noregi, hafi skipulagsyfirvöld á landsvísu sambærilega heimild.
Niðurstöður átakshóps um úrbætur á innviðum, sem vísað er til í skýrslunni, leiðir í ljós að þörf þykir á að sníða sérstaka málsmeðferð fyrir skipulagsákvarðanir um raforkuflutningsmannvirki hér á landi. Þótt þar sé eingöngu horft til raforkuflutningsmannvirkja er ástæða til að ætla að tilefni sé til að hafa möguleika á sambærilegri málsmeðferð fyrir annars konar innviðauppbyggingu sem varðar stærri samfélagshagsmuni, svo sem á sviði samgöngumála og raforkuframleiðslu, líkt og þekkist í nágrannalöndunum. Í lokaorðum skýrslunnar segir að grunninnviðir lands og þjóðar séu ýmist á forræði einkaaðila, ríkis og sveitarfélaga. Þau sjónarmið hafi komið fram að ríkið fari með skipulagsvald vegna grunninnviða sem varða þjóðaröryggi og landið í heild.
Einmitt það er stóra verkefnið sem bíður okkar á vettvangi stjórnmálanna. Við þurfum að blása til sóknar til að tryggja þjóðaröryggi og til þess þurfum við að styrkja og byggja upp lykilinnviði samfélagsins með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. janúar 2021.