Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Alls eru yfir 400 milljarðar af almannafé bundnir í bankarekstri, sem sagan sýnir að er í eðli sínu áhættusamur og sveiflukenndur. Hvergi í Evrópu eru umsvif ríkisins á markaðinum jafn mikil og hér.
Í nágrannalöndum okkar er almenn samstaða um að ríkið sé ekki rétti aðilinn til að leiða baráttuna í sífellt harðnandi samkeppnisumhverfi og almannafé sé betur varið í uppbyggilegri verkefni. Áherslu eigi að leggja á traust og öruggt regluverk, sem dragi úr áhættusækni, en tryggi öfluga þjónustu við heimili og fyrirtæki.
Nálgumst nágrannaríkin
Með fyrirhugaðri sölu hluta í Íslandsbanka verður stigið stutt skref í að færa íslenskt umhverfi nær því sem þekkist á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Stefnt er að sölu á um fjórðungshlut í almennu opnu útboði, þó hlutfallið kunni að verða lítillega hærra eða lægra.
Til hefur staðið að draga úr áhættu ríkisins í bankarekstri um árabil. Söluáformin koma fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, eigendastefnu ríkisins og eru í samræmi við niðurstöður Hvítbókar frá 2018, þar sem breiður hópur óháðra sérfræðinga lagði drög að heildstæðri framtíðarsýn fyrir íslenskt fjármálakerfi. Í henni kemur fram að ekki sé ákjósanlegt að sami aðili sé ráðandi á markaðnum líkt og ríkið er í dag.
Loks eru áformin í samræmi við gildandi lög. Í lagafrumvarpinu, sem þáverandi fjármálaráðherrann Oddný Harðardóttir mælti fyrir árið 2012, segir að ekki séu forsendur til þess að ríkið verði langtímaeigandi eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Þvert á móti beri að losa um þá með sölu, að undanskildum skilgreindum lágmarkshlut í Landsbankanum.
Skynsamleg tímasetning
Söluferlið nú kemur til eftir tillögu Bankasýslu ríkisins sem heldur utan um eignarhald ríkisins í bönkunum. Horft er til þess að rekstur Íslandsbanka er stöðugur og eiginfjárhlutfall hátt. Hlutabréfavísitölur á Íslandi og í nágrannaríkjum hafa hækkað verulega undanfarna mánuði, ekki síst í bankarekstri. Hlutabréf í Arion banka eru um þessar mundir í hæstu hæðum frá skráningu á markað.
Þrátt fyrir þessa góðu stöðu má ekki gefa sér að bankarnir verði gullkálfar fyrir ríkissjóð til framtíðar. Síðustu ár hafa þeir skilað myndarlegum arðgreiðslum, en hinar háu fjárhæðir má að miklu leyti rekja til jákvæðra virðisbreytinga. Tímabili slíkra umfram arðgreiðslna er lokið og hóflegri arðsemi byggist á reglulegum liðum.
Nú er því kominn tími til að aðrir stígi að borðinu, með meiri þekkingu og þol fyrir sveiflum, frekar en að tveir bankar hvíli í fangi íslenskri ríkisins í óljósri hagnaðarvon með tilheyrandi áhættu fyrir skattgreiðendur.
Gjörbreytt umhverfi
Í allri umræðu um bankasölu verður að hafa í huga þá umgjörð sem slíkri starfsemi er búin. Undanfarin ár hefur eftirlit með bönkum og kröfur til þeirra verið hert verulega. Þar má nefna reglur um eiginfjárhlutföll og laust fé banka, bann við lánum með veði í eigin bréfum, takmarkanir á fyrirgreiðslum til tengdra aðila, strangar hæfniskröfur virkra eigenda og stjórnenda og stórefld starfsemi Fjármálaeftirlitsins.
Þetta verður að hafa hugfast, enda víða talað líkt og aðstæður séu óbreyttar frá árunum fyrir efnahagshrun haustið 2008. Laga- og eftirlitsumhverfi bankastarfsemi er gjörbreytt og umræðan þarf að vera í takt við veruleikann í dag, ekki veruleikann sem þekktist upp úr aldamótum.
Hér má heldur ekki gleyma að íslenska ríkið var í sterkari stöðu en ella gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna árið 2008 einmitt vegna þess að bankarnir voru ekki í eigu ríkisins. Lykilaðgerð við endurreisn bankakerfisins var sú að gera ekki skuldir einkaaðila að ríkisskuldum. Að skilja áhættuna eftir þar sem hún átti heima. Með sölu hluta í Íslandsbanka er stigið skref í þessa sömu átt.
Alltaf ótímabært
Síðustu vikur hafa heyrst kunnuglegar raddir þess efnis að bankasala sé ótímabær, þó málflutningurinn sé hvorki frumlegur né burðugur. Því er haldið fram að bankinn standi svo höllum fæti vegna kórónukreppunnar að ekkert fáist fyrir selda hluti, en í sömu andrá sagt að reksturinn gangi svo vel að ríkið megi með engu móti missa slíkar mjólkurkýr.
Þá fer mörgum sögum um meintar frystingar í útlánasafninu. Þar hefur bankastjórinn þó bent á að frystingar séu nánast alfarið bundnar í ferðaþjónustu, eða um 10% safnsins, þar sem áhersla stjórnvalda hefur einmitt legið hvað þyngst í að byggja undir öfluga viðspyrnu og gjaldfærni þegar birtir til. Enn fremur hafa heyrst fjarstæðukenndar kenningar um að hinn dreifði hópur nýrra minnihlutaeigenda muni á einhvern hátt þvinga fram aðför að veðum ferðaþjónustuaðila.
Loks hefur verið látið að því liggja að söluferlið snúist í raun um að afhenda hluti í bankanum útvöldum, þó margoft hafi komið fram að stefnt sé að opnu almennu útboði og skráningu á markað, þar sem öllum er frjáls þátttaka.
Af þessu má öllum vera ljóst mikilvægi þess að lesa í gegnum línurnar og skilja á milli staðreynda og innihaldslausra upphrópana í umræðunni.
Byggjum undir betri tíð
Hvað sem öllum upphrópunum líður er eitt ljóst. Ef af einhverjum ástæðum ekki fæst ásættanlegt verð fyrir selda hluti verður einfaldlega fallið frá áformum um sölu. Það myndu allir skynsamir eigendur gera.
Gangi allt að óskum munu aftur á móti losna verulegir fjármunir fyrir ríkissjóð til að minnka skuldasöfnun vegna kórónukreppunnar og ráðast í samfélagslega arðbær verkefni. Með því byggjum við undir hraðan viðsnúning og betri tíð samhliða því sem sól hækkar á lofti.
Þannig stígum við enn eitt skrefið fram á við, á braut til enn betri lífskjara.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. janúar 2021.