Hildur Björnsdóttir borgarfulltrúi:
Í ársbyrjun var innleidd styttri vinnuvika á leikskólum Reykjavíkurborgar. Framkvæmdinni fylgdi ekkert viðbótarfjármagn og því fyrirséð að leikskólaþjónusta mun skerðast við útfærsluna – leikskólastjórar segja óhjákvæmilegt að börn verði oftar send fyrr heim vegna fáliðunar.
Þetta er ekki fyrsta ísilagða áramótakveðja jafnaðarmanna til fjölskyldufólks. Í ársbyrjun 2020 kynnti meirihluti borgarstjórnar áform um skertan opnunartíma á leikskólum. Ákvörðunin mætti andstöðu fjölbreyttra hópa sem töldu breytinguna geta dregið úr framgangi á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi og valdið ófyrirséðum tekjumissi.
Hugmyndin um skerta þjónustu var sett í jafnréttismat, en niðurstaðan sýndi glöggt þau neikvæðu áhrif sem breytingin mun hafa á jafnrétti kynjanna. Konur eru líklegri til að taka á sig aukna umönnunarbyrði heimilanna og mæta breyttum þörfum fjölskyldunnar. Barneignir hafa jákvæð áhrif á launaþróun karla en neikvæð áhrif á launaþróun kvenna. Minni atvinnuþátttaka kvenna á vinnumarkaði hefur svo aftur áhrif á tekjuöflun þeirra, framgang í starfi og lífeyriskjör.
Skert þjónusta mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi. Hér mætti nefna fólk af erlendum uppruna, fólk í vaktavinnu og lágtekjuhópa.
Þrátt fyrir niðurstöðuna ákvað meirihluti borgarstjórnar að takmarka opnunartíma leikskólanna fram til áramóta. Ástæðan sögð vera sóttvarnir, jafnvel þó fjölmargar aðrar leiðir væru færar sem ekki kölluðu á skertan opnunartíma. Nú er sigið á seinni helming janúarmánuðar og skerðingin ekki enn verið afturkölluð.
Um nokkurra mánaða skeið hafa ríflega 5.200 fjölskyldur lifað við skerta leikskólaþjónustu í Reykjavík. Fyrirsjáanlega mun styttri vinnuvika leiða til enn frekari skerðinga. Jafnréttismatið sýnir glöggt hvernig breytingarnar geta unnið gegn framgangi kvenna á vinnumarkaði, ógnað starfsöryggi fólks af erlendum uppruna og komið illa niður á lágtekjuhópum. Er nema von maður spyrji, hvað vakir fyrir jafnaðarmönnum í Reykjavík?
Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. janúar 2021.