„Hingað til höfum við talið það sjálfsagt að geta flogið til hvaða lands sem er og þeir sem sækja vinnu erlendis telja fráleitt að greiða skatt í tveimur ríkjum. Lífskjör Íslendinga byggjast á frjálsum vöru- og þjónustuviðskiptum og fjölmörg störf í landinu eru tengd utanríkisviðskiptum með einum eða öðrum hætti," segir Guðlaugur Þór í inngangsorðum sínum í nýrri skýrslu utanríkisráðuneytisins um utanríkisviðskipti Íslands.
Skýrslan ber heitið Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands og er afar yfirgripsmikil. Hún tekur til allra hliða utanríkisviðskipta. Fjallað er um áhrif heimsfaraldursins á íslenskan útflutning, stöðu utanríkisviðskipta, gang mála innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, fríverslunarsamskipti Íslands við EFTA-ríkin og ESB, fríverslunarsamninga EFTA og Íslands sem tryggja íslenskum útflytjendum betri aðgang að fjölda markaða um allan heim, auk þess sem finna má í skýrslunni ítarlegt yfirlit yfir alla helstu viðskiptasamninga Íslands.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra segir Íslendinga njóta góðs af því viðskiptafrelsi sem ríkir á Íslandi, hvort sem um ræðir aukið vöruval og lækkað verð til neytenda eða auknar skatttekjur ríkisins frá fyrirtækjum sem selja vörur og þjónustu á erlenda markaði.
Í skýrslunni er viðskiptastefna Íslands og annarra EFTA-ríkja borin saman við viðskiptastefnu Evrópusambandsins. Í þeim samanburði sést meðal annars að hlutfallslega eru hér á landi mun fleiri tollskrárnúmer sem bera engan almennan toll og að meðaltollur er töluvert lægri í samanburði við ESB.