Eyþór Arnalds oddviti borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins:
Í fréttum þessa vetrar hefur fátt annað verið í fréttum en kórónuvírusinn. Nema ef vera skyldi bóluefni. Það er því ekki úr vegi að benda lesendum á eitt atriði sem farið hefur hljótt. Á næstu vikum verður auglýstur viðauki við aðalskipulag Reykjavíkur. Aðalskipulagið gildir til 2030, en viðaukinn gildir til 2040. Húsnæðisþörf er mikil í borginni, enda hefur skipulagður skortur á byggingarlóðum leitt til hækkunar langt umfram almennt verðlag.
Kapall sem seint gengur upp
Samkvæmt lífskjarasamningnum átti að hefja skipulagningu Keldnalandsins árið 2019. Það hefur ekki verið gert. Í áætlun um framboð á byggingarlóðum gerir borgin ráð fyrir að helsta uppbyggingarsvæðið verði á Ártúnshöfða næstu árin, en til að svo megi verða þarf að flytja atvinnufyrirtækin annað. Gert er ráð fyrir að ganga á helsta íbúðasvæðið við Úlfarsárdal og gera það að atvinnusvæði, þvert á fyrri loforð um uppbyggingu. Til að kapallinn gangi upp þarf svo að setja Sæbraut í stokk, en forsenda þess er lega Sundabrautar. Hún liggur ekki fyrir. Þá gerir borgin ráð fyrir því að byggðar verði meira en 4.000 íbúðir þar sem Reykjavíkurflugvöllur er. Þetta er gert þrátt fyrir að fyrir liggi að flugvöllurinn er ekki á förum. Næstu árin verður barátta um að endurheimta störf í flugrekstri og lítið fjármagn til að byggja þriðja flugvöllinn á suðvesturhorninu. Það er því mikil bjartsýni að gera beinlínis ráð fyrir því að húsnæðisþörf verði mætt með því að gera ráð fyrir þúsundum íbúða á flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Ekki er gert ráð fyrir að byggt verði á Keldum fyrir en eftir áratug. Ekkert á að byggja íbúðir í Örfirisey eða á BSÍ-reit. Engin hagkvæm byggingarsvæði nýtt en treyst á að flugvöllurinn fari í Hvassahraun. Fyrri áætlanir um nægt framboð byggingarlands í Reykjavík gengu ekki eftir. Fjölgunin fór annað. Nú er verið að fækka hagkvæmum byggingarsvæðum til næstu 20 ára. Viljandi. Þess í stað er gert beinlínis ráð fyrir því að flugvöllurinn víki þótt nýlega sé búið að semja um að hann verði áfram að óbreyttu. Gatið í áætluninni er gríðarstórt eða sem nemur heilu kjörtímabili þar sem þörf er fyrir um 1.100 íbúðir á ári. Kapall sem skortir lykilspil gengur aldrei upp. Húsnæðisáætlun sem nýtir ekki hagkvæm byggingarsvæði fellur um sjálfa sig.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. janúar 2021.