Alþingi samþykkti fjárlög fyrir árið 2021 á Alþingi fyrir helgi. Þar er ríkisfjármálunum beitt áfram af fullum þunga til að verja störf og skapa viðspyrnu.
Góð staða ríkissjóðs við upphaf farsóttarinnar hefur gefið stjórnvöldum tækifæri til að bregðast kröftuglega við afleiðingum hennar með stuðningi við fólk og fyrirtæki í vanda. Fjárlagafrumvarpið endurspeglar þá áætlun stjórnvalda að vinna bug á erfiðum aðstæðum.
Gert er ráð fyrir að staða ríkissjóðs verði neikvæð um 192 milljarða króna á næsta ári. Skattar verða alls um 52 ma.kr. lægri á komandi ári.
Áherslur Sjálfstæðisflokksins í fjárlögum
Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt áherslu á fjölmörg mál sem tryggður er framgangur í fjárlögum fyrir árið 2021.
Veruleg lækkun tekjuskatts kemur fram á næsta ári þegar síðasti hluti skattkerfisbreytinganna tekur gildi. Ráðstöfunartekjur heimilanna aukast en um er að ræða 14 milljarða tekjuskattslækkun árið 2021. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir velferðarkerfin varin í fjárlögum næsta árs og mikið átak verði í fjárfestingum og uppbyggingu. Áhersla er einnig á stórbætta stafræna þjónustu.
„Að fjárfesta í hugviti og framtakssemi frumkvöðla af meiri krafti en áður er eitt af því mikilvægasta sem mun leggja grunn að viðspyrnu efnahagslífsins og framtíðarvelferð þjóðarinnar,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en hún hefur tryggt frekari framlög til nýsköpunar og rannsókna á næstu árum eða um 60% aukning. „Við erum að veðja á einstaklinginn.“
Þá er þrífösun rafmagns flýtt um 10 ár sem er mikið framfaraskref fyrir byggðir landsins. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fær einnig aukið fjármagn til að tryggja frumkvæði í uppbyggingu áfangastaða og bregðast hratt við þörfum og uppbyggingu. Þá er Tækniþróunarsjóður einnig efldur.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra hefur meðal annars tryggt frekari framlög til netöryggismála sem gerir Íslandi kleift að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi bandalagsþjóða í netöryggismálum. Þá lagði Guðlaugur til við Norðurlöndin að saman yrði horft til þess að notast áfram við fjarfundaskipulag þegar möguleiki er á og færa þannig alþjóðasamskiptin inn í 21. öldina, minnka kolefnisspor og spara fé.
„Það skiptir miklu fyrir viðspyrnu efnahagslífsins að loðna veiðist í vetur,“ segir Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra en Hafrannsóknarstofnun hefur verið tryggðir auknir fjármunir til að stunda öfluga loðnuleit en það er lykilatriði til að auka líkur á loðnuvertíð. Matvælasjóður verður einnig efldur til að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaði og sjávarútvegi. Þá er aukinn stuðningur við bændur vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins en Norðurlöndin hafa einnig gripið til sambærilegra aðgerða til að standa vörð um landbúnað á þessum krefjandi tímum.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur tryggt fjármag til eflingar björgunarskipaflota Landsbjargar ásamt því að ýta úr vör byggingu samhæfingamiðstöðvar allra viðbragðsaðila á höfuðborgarsvæðinu. Þá er lögð áhersla á leigu á nýrri þyrlu fyrir Landhelgisgæsluna, kjarasamningar fullfjármagnaðar við lögregluna og stórauknar stafrænar lausnir á öllum sviðum. Ráðherra hefur einnig eflt embætti saksóknara með sex nýjum rannsakendum til að bæta og hraða meðferð mála.
Ef þú vilt kynna þér fjárlögin 2021 nánar, smelltu hér.