Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra:
Það eru tæp tvö ár síðan ég kynnti fyrst hugmyndir um stofnun Matvælasjóðs með sameiningu Framleiðnisjóðs landbúnaðarins og AVS-rannsóknasjóðs í sjávarútvegi. Stofnun sjóðsins varð síðan í vor hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum Covid-19. Var ákveðið að verja 500 milljónum króna til stofnunar sjóðsins á þessu ári, til viðbótar við það sem AVS og Framleiðnisjóður höfðu þegar ráðstafað. Þá fær sjóðurinn aukalega 250 milljónir á næsta ári. Ég mælti síðan fyrir frumvarpi um stofnun sjóðsins um miðjan apríl sl. og varð frumvarpið að lögum viku síðar – mótatkvæðalaust.
Í kjölfarið tók við mjög öflug og farsæl vinna við að koma sjóðnum á fót undir forystu Grétu Maríu Grétarsdóttur, stjórnarformanns sjóðsins, í samráði við Bændasamtökin og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.
266 umsóknir
Það var sérstaklega ánægjulegt að upplifa þann mikla fjölda umsókna sem sjóðnum barst, en alls bárust 266 umsóknir. Um leið var frábært að sjá hversu öflugar umsóknir bárust. Umsóknir um verkefni um að skoða tækifæri til að fullvinna laxaafurðir á Íslandi, framleiða húðvörur úr landbúnaði, rækta hafra og haframjólk, auka nýtingu úr þörungum, þróa framleiðslukerfi í sauðfjárrækt auk styrkja til markaðssetningar á íslenskum afurðum og svona mætti lengi telja. Þessar öflugu og fjölbreyttu umsóknir eru vitnisburður um þann gríðarlega kraft og grósku sem er í íslenskri matvælaframleiðslu. Maður fyllist bjartsýni – aukinni trú á framtíðina – þegar maður upplifir þennan kraft.
Í gær kynnti ég síðan fyrstu úthlutun Matvælasjóðs. Sjóðurinn styrkti alls 62 verkefni vítt og breitt um landið líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Það var enda ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar. Því er ég afskaplega ánægður og stoltur að þessi áhersla hafi skilað sér í þessari fyrstu úthlutun Matvælasjóðs.
Aukin verðmætasköpun
Styrkir Matvælasjóðs í gær voru um leið skýr skilaboð; stjórnvöld eru að fjárfesta í framtíðinni. Fjárfesta í aukinni verðmætasköpun. Við erum í krafti nýsköpunar og þróunar að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu til hagsbóta fyrir allt samfélagið.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. desember 2020.