„Það var ein af lykiláherslum mínum við stofnun sjóðsins að hann myndi styrkja verkefni um allt land og að stuðningur við matvælaframleiðslu verði sem næst uppruna hennar. Því er ég afskaplega ánægður og stoltur að þessi áhersla hafi skilað sér í þessari fyrstu úthlutun Matvælasjóðs eins og sjá má á þessari mynd,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem í morgun kynnti fyrstu úthlutun Matvælasjóðs. Alls hljóta 62 verkefni styrk að fjárhæð allt að 480 milljónir að þessu sinni. Alls bárust 266 umsóknir um styrki upp á 2,6 ma.kr.
„Þessar öflugu og fjölbreyttu umsóknir eru vitnisburður um þann gríðarlega kraft og grósku sem er í íslenskri matvælaframleiðslu. Matvælasjóður styrkir nú 62 verkefni vítt og breitt um landið,“ segir Kristján Þór.
Hann segir að í styrkjum Matvælasjóðs felist skýr skilaboð. „Stjórnvöld eru að fjárfesta í framtíðinni. Fjárfesta í aukinni verðmætasköpun. Við erum í krafti nýsköpunar og þróunar að hvetja til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu til hagsbóta fyrir allt samfélagið,“ sagði hann.
Fjölbreytt verkefni
Hlutverk Matvælasjóðs er að styrkja þróun og nýsköpun við framleiðslu og vinnslu matvæla úr landbúnaðar- og sjávarafurðum. Sjóðurinn hefur fjóra styrktarflokka og verður fulltrúum 62 verkefna boðið að ganga til samninga um nýja styrki fyrir allt að 480 m. króna. Meðal verkefna sem hljóta styrk að þessu sinni eru verkefni um að skoða tækifæri til að fullvinna laxaafurðir á Íslandi, verkefni um framleiðslu á húð- og hárvörum úr hliðarafurðum úr landbúnaði, verkefni um ræktun hafra og framleiðsla á haframjólk, verkefni sem gengur út á að auka nýtingu á verðmætum efnum úr þörungum, verkefni um þróun á framleiðslukerfi í sauðfjárrækt, verkefni um framleiðslu á fiskisósum úr afskurði og aukaafurðum af próteinríkum fiski og matþörungum úr héraði, verkefni um framleiðsla á íslenskri jurtamjólk á sjálfbæran hátt og verkefni um framleiðslu á orkustykkjum og snakki úr fjallagrösum.
Nánari upplýsingar um úthlutun ráðherra og lista yfir þau verkefni sem boðið er að þiggja styrk má finna hér.
Áætlað er að Matvælasjóður muni hafa 628 milljónir til umráða á árinu 2021 og er stefnt á að opnað verði fyrir umsóknir í mars og að önnur úthlutun sjóðsins verði í maí 2021.