Valgerður Sigurðardóttir borgarfulltrúi:
Í stað þess að fara í stórar breytingar á Grófarhúsinu, sem áætlað er að kosti um 4,5 milljarða, eigum við að verja grunnþjónustuna. Það er mikið hægt að gera fyrir 4,5 milljarða. Nú er fullkomið tækifæri til að endurskoða áætlanir um að ráðast í endurgerð á Grófarhúsinu. Mun ég fyrir hönd Sjálfstæðisflokks leggja til í borgarstjórn í dag að hætt verði við endurgerðina þegar við afgreiðum fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar.
Leikvellir
Það er fátt skemmtilegra en að heyra þegar börn eru að leik á leikvöllum. Þeir hafa sannarlega verið vel nýttir um alla borg síðan í vor. Það er magnað að sjá hvað jafn lítið svæði og leikvellir eru oftast geta iðað af miklu lífi. Ef við myndum endurnýja þrjátíu leikvelli í öllum hverfum borgarinnar fyrir samtals 600 milljónir gætum við samt átt veglegan afgang eftir af þeim peningum sem áætlað er að verja í Grófarhúsið. Mun ég því einnig leggja til í dag að við endurnýjum þrjátíu leikvelli.
Allir út að leika
Í haust, á óteljandi gönguferðum mínum um nærumhverfið, hef ég mætt þvílíkum fjölda fólks á öllum aldri; unglingum sem sitja og horfa á hafið, ungum börnum með foreldrum sínum í leikjum, fólki að hjóla, hlaupa, labba. Fólki á öllum aldri að njóta þess að vera í náttúrunni, njóta þess að hreyfa sig. Við vitum öll hversu mikilvæg hreyfing er fyrir bæði líkama og sál. Því búum við vel hérna í Reykjavík, stígakerfið okkar er gott og það tengir okkur með einföldum hætti við frábæra náttúru. Höldum öll áfram að hreyfa okkur og vera úti. Gerum nærumhverfið sem best með því að endurnýja leikvelli í öllum hverfum borgarinnar, verjum grunnþjónustuna og skuldsetjum borgina okkar ekki um of.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. desember 2020.