Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:
Eitt mikilvægasta verkefni sveitarstjórna felst í því að skapa íbúum sínum skilyrði fyrir uppbyggingu á atvinnu- og íbúðarhúsnæði. Þetta er gert með raunhæfu skipulagi, almennum lóðaúthlutunum og þeim opinberu framkvæmdum sveitarfélaga sem slík uppbygging krefst. Sveitarstjórnir sem vanrækja þessa skyldu koma í veg fyrir eðlilega framþróun síns sveitarfélags og halda í raun fyrir kverkar þess. Þetta hafa ætíð þótt augljós og almenn sannindi.
Glórulaus þéttingarstefna
Það er hins vegar ekki að sjá að borgarstjórnarmeirihlutinn sé á sömu skoðun. Í heilan áratug hafa lóðaúthlutanir verið einn samfelldur hrakfallabálkur í höfuðborginni. Með aðalskipulaginu sem samþykkt var 2013 var ákveðið að nær öll uppbygging færi fram á dýrum þéttingarreitum, miðsvæðis í borginni. Ekki var gert ráð fyrir nýjum úthverfum sem reyndar voru kölluð meinsemd í skipulaginu. Þéttingarreitirnir hafa yfirleitt verið í eigu banka, sjóða eða milljarðamæringa sem seldu reitina á hæsta markaðsverði. Það er margfalt verð miðað við þær lóðir sem fyrri borgarstjórnir úthlutuðu almenningi og verktökum úr landi borgarinnar.
Þessi stjórnviska hefur haft í för með sér eftirfarandi afleiðingar:
1. Uppbygging íbúðarhúsnæðis í Reykjavík lagðist nánast af fram til 2018.
2. Í Reykjavík margfaldaðist lóðaverð sem hlutfall af íbúðaverði og víða tífaldaðist það, úr 4% í 40%.
3. Borgarstjórn hannaði og fór fyrir verðsprengju á íbúðum og á leigumarkaði frá 2014. Þar með var ungu fólki gert ókleift að kaupa eða leigja íbúðarhúsnæði í Reykjavík.
4. Þessi þéttingarstefna snerist því upp í andhverfu sína: meiri dreifingu byggðar hjá ungu fólki, úr Reykjavík og í nágrannasveitarfélög, en dæmi eru um í sögu Reykjavíkur, allt frá Akranesi til Selfoss og Suðurnesja.
5. Þessi dreifing byggðar margfaldaði svo vegalengdir fólks milli heimilis og vinnu, lengdi þar með ferðatíma og jók umferðarþunga og umferðarmengun.
Kosningabæklingur í boði borgarbúa
Svona trakteringar hafa það náttúrlega í för með sér að borgarstjóri þarf árlega að láta semja, hanna, prenta og dreifa fyrir sig kosningabæklingi um „fasteignaþróun í Reykjavík“. Sá nýjasti ber yfirskriftina Uppbygging íbúða í borginni og Græna planið kom út í október sl. í 63.500 eintökum og kostaði þrettán milljónir. En hver borgar svo brúsann? Jú, borgarbúar.
Ósannindi borgarstjóra
Samkvæmt húsnæðisáætlun Reykjavíkurborgar hefði þurft á síðustu árum og þarf á næstu árum að byggja eitt þúsund nýjar íbúðir í borginni árlega. Borgarstjóri hefur oft látið hafa það eftir sér að eitt þúsund íbúðir hafi verið byggðar í Reykjavík á síðustu fimm árum. Þetta eru ósannindi. Hið rétta er að 533 íbúðir hafa verið byggðar að meðaltali í Reykjavík á sl. sex árum samkvæmt tölum borgarinnar sjálfrar. Þúsund íbúða markið hefur aðeins einu sinni náðst á sl. sex árum. Þá eru núna mun færri íbúðir í byggingu í Reykjavík en þörf er á samkvæmt gögnum borgarinnar. Eingöngu 443 íbúðir eru skráðar á fokheldisstigi að mati byggingarfulltrúa. Núverandi gat í áætlun borgarinnar hljóðar því að minnsta kosti upp á 4.000 íbúðir.
Og enn neitar borgarstjóri ungu fólki um húsnæði í borginni, en að mati Samtaka iðnaðarins eru nýbyggðar íbúðir í Reykjavík of dýrar til að uppfylla skilyrði hlutdeildarlána ríkisins.
Lóðir fyrir fólk og fyrirtæki
Ekki tekur svo betra við þegar hugað er að lóðum fyrir atvinnuhúsnæði. Á undanförnum árum hafa stofnanir og reykvísk fyrirtæki af ýmsum toga ekki séð sér annað fært en að flytja starfsemi sína úr höfuðborginni. Af nýlegum dæmum þar um má nefna Sýslumanninn á höfuðborgarsvæðinu, Tryggingastofnun og aðalstöðvar Íslandsbanka sem fóru í Kópavog og Hafrannsóknastofnun sem flutti í Hafnarfjörð. Stefna meirihlutans um þéttingu byggðar hefur þrengt að rótgrónum atvinnusvæðum og ýtt undir brottflutning. Kostir á uppbyggingu innan Reykjavíkur hafa verið takmarkaðir og fáar atvinnulóðir eru þar í boði. Ég mun því leggja fram tillögu í borgarstjórn nk. þriðjudag við síðari umræðu fjárhagsáætlunar um úthlutun atvinnulóða fyrir fjölbreytta atvinnustarfsemi. Auk þess mun ég leggja fram tillögu í borgarstjórn um að fjölgað verði lóðum til úthlutunar í Úlfarsárdal, uppbyggingu í Keldnalandi verði flýtt og lögð drög að íbúðahverfi m.a. í Geldinganesi. Slíkar lóðir yrðu á hagstæðu verði, undir fjölbreyttar gerðir íbúðarhúsnæðis. Þannig gæfist ungu fólki aftur tækifæri til að koma þaki yfir höfuðið í Reykjavík.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. desember 2020.