„Ég fagna því að kjarnahagsmunir íslenskra fyrirtækja í viðskiptum við Bretland hafi verið tryggðir með bráðabirgðafríverslunarsamningi.“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra um bráðabrigðafríverslunarsamning sem undirritaður var fyrr í vikunni milli Íslands og Bretlands.
„Markmið okkar er hins vegar að klára víðtækan fríverslunarsamning sem fyrst enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja,“ segir ráðherra.
Samningurinn tryggir óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. Hann mun taka gildi um áramót þegar aðlögunartímabili vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu lýkur.
Samningurinn sem undirritaður var í Lundúnum byggist á samningi sem upphaflega var gerður í apríl 2019 og stóð til að tæki gildi ef útganga Bretlands úr ESB hefði verið án samnings. Þar sem Bretland gekk úr Evrópusambandinu með útgöngusamningi þann 31. janúar sl. kom aldrei til þess að sá samningur tæki gildi. Í október sl. náðist samkomulag um að bráðabirgðasamningurinn taki gildi um áramót uns fríverslunarsamningurinn er tilbúinn og með undirrituninni er sú ákvörðun fest í sessi.