Frelsum fólk úr viðjum kerfisins
'}}

Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:

Í dag leggja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks til við aðra umræðu fjárhagsáætlunar borgarinnar að gera áætlun til þriggja ára sem geri leigjendum Félagsbústaða mögulegt að eignast húsnæðið sem þeir búa í og leigja af borginni. Útfærslan verði unnin í samvinnu við Félagsbústaði og Reykjavíkurborg. Núverandi eignasafn Félagsbústaða hljóðar upp á rúmlega 2.700 íbúðir. Lágar tekjur eru skilyrði fyrir úthlutun íbúðar og því geta leigjendur ekki aflað sér viðbótartekna án þess að eiga á hættu að missa húsnæðið. Enn fremur eru eignarmörk mjög lág. Það þýðir að fólk getur ekki safnað sér fyrir útborgun í íbúð á sama tíma og það leigir félagslegt húsnæði. Fátæktargildra kerfisins er því þannig byggð upp að einstaklingum sem nýta félagslega úrræði Reykjavíkurborgar er gert ókleift að bæta kjör sín til dæmis með framgangi í starfi. Samkvæmt tölfræði síðustu tíu ára hefur einungis 1% þeirra sem búa í íbúðum Félagsbústaða komist út úr kerfinu, á ári hverju, en slík tölfræði undirstrikar mikilvægi þess að breyta þurfi núverandi fyrirkomulagi kerfisins. Samkvæmt leigumarkaðskönnun Íbúðalánasjóðs frá 2018 vilja aðeins 8% þeirra sem eru á leigumarkaði búa í leiguhúsnæði, en um 80% þeirra sem eru í leiguhúsnæði vilja eignast eigin eign. Verði tillaga Sjálfstæðisflokksins samþykkt er Reykjavíkurborg að taka fyrsta skrefið í átt að frelsun fólks úr viðjum kerfisins. Félagslega kerfið yrði því með gjörbreyttu sniði og byggt upp á þann veg að það grípi fólk í neyð en hjálpi því jafnharðan aftur út í lífið þegar færi gefst á því. Núverandi kerfi – sem er raunar fátæktargildra enda kemur það í veg fyrir að fólk afli sér hærri tekna og eignist sitt eigið húsnæði – er byggt á pólitískri ákvörðun. Pólitískri ákvörðun um að leiða fólk í gildru. Við leggjum til breytingar á kerfinu með það fyrir augum að koma fólki á fætur enda yrði þetta tækifæri fyrir fólk til að standa á eigin fótum.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 8. desember 2020.