Óli Björn Kárason alþingismaður:
Rétturinn til að ráða sínu eigin lífi en um leið virða rétt annarra til hins sama er hornsteinn í hugmyndafræði sem ég hef alla tíð aðhyllst og barist fyrir. Frjálshyggja? Örugglega. Hægristefna? Án nokkurs efa. Íhaldssemi? Líklega. En í einfaldleika sínum er þetta hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins. Í setningarræðu landsfundar fyrir rúmum tveimur árum orðaði Bjarni Benediktsson formaður flokksins þetta með einföldum hætti: „Við höfum byggt allt okkar starf á trúnni á frelsi einstaklingins.“
Forystumenn og áhrifamiklir hugsjónamenn Sjálfstæðisflokksins hafa á rúmum 90 árum meitlað grunnhugsjónina um mannhelgi og að andlegt og efnahagslegt frelsi sé frumréttur hvers og eins. Forsenda þess að einstaklingar geti notið hæfileika sinna er að þeir hafi frelsi til athafna. Markmiðið er að tryggja „frelsi fyrir alla, ekki frelsi fyrir fáa, stóra og sterka, sem nota afl sitt og auð til að troða miskunnarlaust á öðrum“, eins og Davíð Oddsson sagði í ræðu í tilefni af 75 ára afmæli flokksins.
Á grunni þessarar hugmyndafræði hef ég mótað afstöðu til einstakra mála, reynt að standa við loforð Sjálfstæðisflokksins um að gefa einstaklingum svigrúm til að móta sína framtíð, hvetja og styðja við framtakssemi fólks út um allt land. Færa valdið til fólksins en hrifsa það ekki frá því. Tryggja valddreifingu og koma í veg fyrir miðstýringu.
Gegn sjálfsstjórn og frelsi
Þess vegna get ég aldrei stutt að völdin séu tekin af íbúum sveitarfélaga og þeir sviptir forræði yfir eigin málum. Að skipa sveitarfélagi með lögum til að sameinast öðru gengur gegn hugmyndum um sjálfræði íbúa og sjálfstæði sveitarfélaga. Sú lögþvingun sem boðuð er í stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á mánudag byggir á hugmyndafræði valdboðs og gengur gegn hugmyndafræði sjálfsstjórnar og frelsis sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur byggt á. Hér ættu menn að minnast orða Bjarna Benediktssonar eldri, um að þjóðfélagi verði „ekki stjórnað með oflæti eða orðaskaki“.
Um það verður ekki deilt hér að sameining og fækkun sveitarfélaga getur verið ákjósanleg og skynsamleg fyrir íbúana. Markmiðið er hins vegar ekki að fækka sveitarfélögum heldur að styrkja og efla þjónustu við borgarana. Og sveitarfélögum hefur fækkað hressilega. Árið 1990 voru þau 204 talsins en eru nú 69. Víða eru viðræður um sameiningu. Þær viðræður eru á forsendum íbúanna sjálfra og þeir einir taka ákvörðun. Embættismenn í Reykjavík stjórna ekki ferðinni.
Hugmyndafræði valdboðsins sem liggur að baki lögþvingaðri sameiningu er ekki aðeins ógeðfelld heldur byggist hún á misskilningi og/eða vísvitandi blekkingum. Hagkvæmni sveitarfélaga og gæði þjónustu við íbúanna er ekki í réttu hlutfalli við íbúafjölda. Fjárhagsleg staða ræðst miklu fremur af hæfileikum sveitarstjórnarmanna og hvernig þeim tekst að uppfylla skyldur sínar en fjölda íbúa. Og það skal endurtekið sem ég skrifaði á síður þessa blaðs í ágúst á liðnu ári:
„Enginn hagfræðingur, viðskiptafræðingur eða fjármálaverkfræðing ur er þess umkominn að skera úr um hver sé hagkvæmasta stærð sveitarfélaga. Enginn sveitarstjórnarmaður, þingmaður eða ráðherra hefur forsendur til að ákveða hver skuli vera lágmarksfjöldi íbúa í hverju sveitarfélagi svo íbúarnir fái notið þeirrar þjónustu sem þeir gera kröfu til og eiga rétt á samkvæmt lögum.“
Röksemdin um stærðarhagkvæmni sveitarfélaga fýkur út í veður og vind um leið og farið er yfir fjárhagsstöðu og rekstur stærsta sveitarfélags landsins.
Í þessum efnum eins og í flestum öðrum er farsælast að halda valdinu í heimabyggð. Lofa íbúum að taka ákvarðanir um hvernig þeir telja best að halda á málum.
Valdið sogið úr heimabyggð
Ég hef haldið því fram að náttúruvernd geti verið ágætlega arðbær auk þess sem við berum siðferðilega skyldu til að skila landinu til næstu kynslóðar í ekki verra ástandi en við tókum við því. Við Íslendingar eigum flest undir náttúrunni og sjálfbærri nýtingu hennar. Náttúruvernd og nýting auðlinda fara vel saman þegar vel tekst til eins og fiskveiðistjórnunarkerfið sannar. Ferðaþjónusta á allt sitt undir náttúruvernd.
Í flestu er hugmyndin um miðhálendisþjóðgarð heillandi. Forsendan er að skipulagsvald sveitarfélaga sé virt og umráða- og nýtingaréttur íbúanna, sem í gegnum aldirnar hafa verið gæslumenn náttúrunnar, haldist. Einkaframtakið og eignarrétturinn hafa verið mikilvæg vörn fyrir náttúruna.
Ég mun því styðja hugmyndina um miðhálendisþjóðgarð sé hún byggð á skynsamlegri nýtingu auðlinda hálendisins, frjálsri för almennings, virðingu fyrir eignarréttinum, frumkvöðlarétti og sjálfsstjórn sveitarfélaga í skipulagsmálum.
Með öðrum orðum: Hugmyndafræði stjórnlyndis og miðstýringar má ekki ráða för þegar og ef miðhálendisþjóðgarði verður komið á fót í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Löngunin til að stýra öllu frá 101-Reykjavík er sterk. Hætta er sú að valdið sogist úr heimabyggð til örfárra einstaklinga sem neita að skilja hvernig hægt er að lifa í sátt við náttúruna, verja hana og nýta auðlindir á sama tíma.
Á komandi vikum verð ég, líkt og aðrir þingmenn, að taka afstöðu til margvíslegra mála. Ég get ekki stuðst við annað en þann leiðarvísi sem sannfæring og sjálfstæðisstefnan gefa. Oft þarf ég að sveigja eitthvað af leið en ákveðin grunnprinsipp verða ekki brotin. Ekki þegar kemur að þvingunaraðgerðum gagnvart sveitarfélögum, ekki við stofnun miðhálendisþjóðgarðs, fjölmiðlafrumvarpi og ekki við endurskoðun sóttvarnalaga. Listinn er (óþægilega) langur.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. desember 2020.