Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra:
Abraham Lincoln fór þá frumlegu leið, þegar hann myndaði sína fyrstu ríkisstjórn árið 1860, að skipa öflugustu andstæðinga sína úr flokki repúblikana í mikilvægustu ráðherraembættin. Þetta reyndist heilladrjúg ákvörðun. Með kænsku sinni og leiðtogahæfileikum tókst honum að mynda sterka einingu ólíkra einstaklinga til að takast á við djúpstæð átök og sundrungu Bandaríkjanna sem lauk með afnámi þrælahalds og sigri norðurríkjanna í borgarastríðinu.
Dæmið af stjórnkænsku Lincolns sýnir að ólíkir og viljasterkir einstaklingar geta náð miklum árangri ef þeir taka höndum saman. Þá ýta þeir ágreiningsmálum sínum til hliðar en sameinast um leiðir til að fást við brýn viðfangsefni. Það sama gildir um samstarf ólíkra flokka.
Atvikin höguðu því þannig eftir síðustu kosningar að mynduð var ríkisstjórn afar ólíkra stjórnmálaflokka 30. nóvember 2017. Má segja að höfuðandstæðingar í íslenskum stjórnmálum um áratugaskeið hafi slíðrað sverðin í þágu þjóðarhagsmuna. Ríkisstjórnin var eins konar „team of rivals“ svo vitnað sé til dæmisögunnar hér að framan. Flókin úrlausnarefni biðu nýrrar ríkisstjórnar, ekki aðeins þau sem þá blöstu við heldur kom það í hlut hennar að fást við óvæntan vágest – kórónuveiruna – sem valdið hefur gríðarlegum búsifjum hér sem annars staðar.
Stjórninni var ekki spáð langlífi af andstæðingum hennar og á það bent að engin þriggja flokka ríkisstjórn hefur setið út heilt kjörtímabil á Íslandi. Reynslan af samstarfinu segir þó aðra sögu.
Fyrsta og mikilvægasta verkefni ríkisstjórnarinnar var að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum og frið á vinnumarkaði með „raunverulegum kjarabótum“ eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það tókst þegar víðtækir samningar tókust á almennum vinnumarkaði í apríl 2019 eftir hatrömm átök.
Ekki er spurning að stöðugleiki, góð fjárhagsleg staða ríkissjóðs og friður á vinnumarkaði kom sér vel þegar heimsfaraldurinn skall á. Þá var heppilegt að þessir ólíku flokkar stóðu saman við stjórnvölinn og kunnu að starfa saman. Með því að brúa bilið frá hægri til vinstri má segja að við völd í landinu hafi verið eins konar þjóðstjórn. Flokkarnir hafa sameinast um það meginmál í aðgerðum sínum gegn faraldrinum að setja líf og heilsu þjóðarinnar í forgang. Lögð hefur verið áhersla á að halda veirunni niðri og styðja efnahagslega við fyrirtæki og einstaklinga sem aðgerðirnar bitna mest á og forgangsraða í þágu lífs og lýðheilsu.
Að sama skapi hefur verið lögð áhersla á öfluga viðspyrnu þegar fram í sækir. Það eru þau verðmæti sem mestu varða. Þó svo að flokkar haldi í sína hugmyndafræði skiptir máli að geta starfað með öðrum, þá sérstaklega þegar stór viðfangsefni blasa við.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2020.