Eyþór Arnalds oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:
Um þessar mundir er verið að kynna „viðauka við aðalskipulag Reykjavíkur“. Í raun er þetta nýtt aðalskipulag enda er gildistími þess tíu árum lengri en nú er. Áherslan í viðaukanum er á húsnæðismálin. Á fyrri hluta tímabilsins er áhersla á uppbyggingu á Ártúnshöfða þar sem nú er atvinnusvæði. Flutningur á atvinnufyrirtækjunum mun taka tíma, en jafnframt mun kostnaður við aðföng aukast og þar með byggingarkostnaður í Reykjavík.
Reynslan af því að flytja atvinnustarfsemi úr Reykjavík ætti að hafa kennt okkur ýmislegt. Rekstur Björgunar liggur nú niðri þar sem atvinnulóð félagsins var tekin af því. Í staðinn átti félagið að fá aðstöðu í Álfsnesi, sem enn er ekki í hendi. Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir hafa þurft að flytja úr borginni. Nýlegt dæmi er Tryggingastofnun ríkisins sem var við Hlemm og fór í Kópavog á síðasta ári. Þá er Tækniskólinn að hugsa sér til hreyfings og borgin á það á hættu að missa þá mikilvægu stofnun frá sér. En það er fleira sem byggt er á veikum grunni.
Húsnæðisáætlunin
Í viðaukanum er lagt upp með að byggja íbúðir á svæðum þar sem nú er starfsemi fyrir. Þetta er ekki bara dýrt þar sem það þarf að rífa byggingar og færa starfsemi, heldur eru þarna mikil höft á uppbyggingu. Ekkert á að byggja á Keldnalandinu næstu tíu árin þrátt fyrir að þar sé gríðarlega mikið og hagstætt byggingarland innan borgarinnar. Þá er hætt við íbúðir í Úlfarsárdal, engin íbúð leyfð í Örfirisey eða í Laugarnesi þrátt fyrir góða staðsetningu. Í staðinn fyrir þessa góðu og hagstæðu kosti er einblínt á atvinnusvæði sem eiga að víkja.
Á síðari hluta skipulagstímans gerir borgin beinlínis ráð fyrir því að unnt sé að byggja þar sem flugvöllurinn er. Það sjá allir að hafi verið líkur á því að nýr flugvöllur yrði byggður í Hvassahrauni á næstu árum hafa þær horfið með kórónukreppunni. Að ekki sé minnst á jarðhræringahrinu á Reykjanesi. Húsnæðisáætlun borgarinnar er byggð á því að atvinnufyrirtæki flytji burt og að nýr flugvöllur sé fullbyggður í Hvassahrauni. Ekki er ofsögum sagt að segja þessa áætlanagerð lýsa mikilli „bjartsýni“. Betra er að byggja á hagkvæmum og traustum byggingarsvæðum. Ekki á sandi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. nóvember 2020.