Áslaug Arna svaraði spurningum í beinni
'}}

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, sat fyrir svörum í beinni útsendingu á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins fyrr í dag. Upptöku af fundinum má nálgast hér.

Fundurinn var vel sóttur og mörg málefni brunnu á áhorfendum sem töldu á annað hundrað. Hægt var að senda inn spurningar fyrir fundinn og á meðan á honum stóð en ráðherra svaraði flestum þeim spurningum sem bárust.

Stafræn og skilvirkari stjórnsýsla var fundargestum ofarlega í huga. Áslaug Arna fór yfir þær framfarir sem orðið hafa í þessum málaflokki og finna má m.a. á island.is ásamt því sem er á döfinni en miklar breytingar hafa til að mynda orðið hjá sýslumannsembættunum þegar kemur að þinglýsingum. Þá báru útlendingamálin á góma og sérstaklega hvort stytta mætti málsmeðferð verndarmála. Áslaug sagði málsmeðferðartímann hafa styst á undanförnum árum og enn væri rýnt í það hvernig stytta mætti hann meira og gera meðferðina skilvirkari í þágu umsækjenda um alþjóðlega vernd. Um 4 ma.kr. eru nú settir í málaflokkinn.

Dómsmálaráðherra var einnig inntur eftir því hvort hún hygðist efla eftirlit með störfum lögreglunnar og svaraði því til að frumvarp þess efnis væri á lokametrunum í ráðuneyti hennar en þar væri lögð áhersla á sjálfstætt og skilvirkt eftirlit ásamt því að lögfesta samráðsvettvang lögreglunnar, lögregluráð.

Þá var einnig tæpt á málefnum fanga, breytingum á lögum um mannanöfn og netverslun með áfengi, fíkniefnalöggjöfinni, frumvarpi um skipta búsetu barna, stöðu þyrluflota Landhelgisgæslunnar og verkfalls flugvirkja ásamt því hvort ráðherra hefði áhyggjur af stöðu veitingamanna og verslunarmanna þegar kemur að áhrifum aðgerða vegna COVID-19 á störf þeirra. Sagðist hún hafa áhyggjur af þeirra stöðu og litið væri til margra sjónarmiða þegar ákvarðanir um sóttvarnaraðgerðir væru teknar í ríkisstjórn.

Þessi fundur var annar í röð fimm funda með ráðherrum Sjálfstæðisflokksins þar sem þeir svara spurningum áhorfenda. Næsti fundur er á dagskrá fimmtudaginn með Kristjáni Þór Júlíussyni sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og verður hann auglýstur sérstaklega.