Marta Guðjónsdóttir, Örn Þórðarson og Egill Þór Jónsson borgarfulltrúar:
Faraldur kórónuveirunnar snýst ekki um það eitt að ógna lífi og heilsu fólks. Hann hefur lamað heilu starfsgreinarnar, hægt á flestum hjólum atvinnulífsins, skert mikilvæga opinbera þjónustu, ekki síst á sviði heilbrigðis- og menntamála, og aukið mjög atvinnuleysi á skömmum tíma. Atvinnuleysið nú er meira en þegar mest var eftir bankahrunið.
Hagfræðihugtök og mannlífið
Við skulum ætíð hafa það hugfast að slík félagsleg og hagfræðileg óáran bitnar að lokum á einstaklingum og fjölskyldum, ekki síst sem félags-, fjármála- og heilsufarslegur vandi. Þó svo að bjartsýnustu spár gangi eftir um þróun og dreifingu bóluefnis og rénun faraldursins, er það engu að síður samdóma álit flestra sérfræðinga sem reynt hafa að spá í spilin, hér á landi og víðar, að við eigum enn eftir að sjá þessar tilteknu afleiðingar af faraldrinum aukast og að ekki séu líkur á eðlilegu lífi fyrr en næsta vetur. Enn sér ekki fyrir endann á því hversu djúp og varanleg strik faraldurinn hefur sett í samfélög okkar og líf einstaklinganna.
Tillagan er hluti af aðgerðum til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs
Vegna vaxandi atvinnuleysis, fjárhagsvanda, farsóttarþreytu, félagslegrar einangrunar og almenns kvíða hefur þörf á almennri, margþættri ráðgjöf, sálgæslu og margvíslegum stuðningi við fjölskyldur og einstaklinga aukist gífurlega á síðustu mánuðum. Við stöndum því frammi fyrir meiri þörf á þessu sviði en við höfum gert um langt árabil.
Í dag munu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til á borgarstjórnarfundi að komið verði upp tímabundnu ráðgjafatorgi á vegum velferðarsviðs til að þjónusta borgarbúa með fjartækni. Þannig verði þjónustan aðgengilegri, skjótvirkari og hagkvæmari, Slíkt verklag hefur mjög verið í deiglunni að undanförnu, t.d. tilraunir með fjarheilbrigðisþjónustu fyrir landsbyggðina. Það fyrirkomulag ætti að draga úr álagi á þjónustumiðstöðvar borgarinnar og auðvelda aðgengi borgarbúa að þjónustunni. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg nýti nýsköpun og tækni í auknum mæli til að þróa þjónustu við borgarbúa í takt við breyttar aðstæður í samfélaginu. Tillagan er hluti af aðgerðum, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram, til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs Covid-19
Samstarf við háskólastúdenta
Við leggjum til að velferðarsvið hafi frumkvæði að því að manna ráðgjöfina með samstarfi við háskólana. Félög háskólastúdenta yrðu virkjuð í því skyni. Háskólanemar á sínum sérsviðum yrðu tímabundið fengnir til að sinna hinni ýmsu ráðgjöf undir handleiðslu sérfræðinga, s.s. á sviði fjármála, lögfræði, félags- og sálfræði. Hliðstæðu úrræði var komið á í efnahagshruninu þar sem laganemar við Háskóla Íslands voru fengnir til að sinna lögfræðiráðgjöf við borgarbúa í samstarfi við Reykjavíkurborg. Við leggjum til að sú jákvæða reynsla verði nýtt og útvíkkuð, en háskólanemar á efri stigum fengju þannig dýrmæta reynslu á sínum sviðum.
Á sama tíma og álita- og úrlausnarmál eiga eftir að hrannast upp á næstu mánuðum getur Reykjavíkurborg gengið fram fyrir skjöldu í þessum efnum og veitt mikilvæga þjónustu með skjótum og hagkvæmum hætti. Oft var þörf en nú er nauðsyn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.