Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:
Almennt ræður fólk sínum næturstað, sem betur fer. Hið opinbera er lítið að vasast í því, en þegar kemur að því að velja sér næturstað inn í eilífðina virðist annað vera upp á teningnum. Löggjafinn hefur á því miklar skoðanir. Við sjáum það gjarnan í erlendum kvikmyndum að aðstandendur koma saman og dreifa ösku ástvina yfir landsvæði eða stöðuvatn, nú eða jafnvel leyfa duftkeri að hvíla á arinhillunni. En á Íslandi er þetta ekki leyfilegt heldur skal askan jarðsett. Sækja þarf sérstaklega um undanþágu á þessu ákvæði og er það aðeins veitt ef öskunni er dreift á einn stað og það er yfir öræfi eða sjó. Ekki má merkja dreifingarstaðinn og óheimilt er að geyma duftkerið fram að ráðstöfun þess annars staðar en í líkhúsi.
Undanþáguumsóknum hefur fjölgað mjög á síðustu árum og hlutfall erlendra ríkisborgara aukist. Líklegt verður þó að telja að útlendingar hafi dreift hér ösku látinna ástvina án þess að sækja um sérstakt leyfi, enda mörgum ekki ljóst að hér séu í gildi ströng lög um dreifingu ösku. Í flestum löndum er löggjöfin mun opnari, ef það eru þá á annað borð einhver lög um dreifingu ösku.
Óski Íslendingur eftir því að ösku sinni sé dreift við uppáhaldsárbakkann, í sumarbústaðarlandi fjölskyldunnar nú eða í Heiðmörk, þá er það bannað. Af hverju?
Ég sé enga ástæðu fyrir opinberri íhlutun um jarðneskar leifar fólks og mér finnst að fólk eigi að hafa frelsi til að ákvarða sinn hinsta náttstað.
Ég hef því lagt fram á Alþingi breytingar á þessum lögum. Þar er lagt til að dreifing jarðneskra leifa verði gefin frjáls. Nauðsynlegt er að farið sé áfram með ösku látinna manna af virðingu. Áfram þurfi að búa um öskuna í þar til gerðum duftkerum eftir líkbrennslu en aftur á móti verði gefið frjálst hvað gert verður við kerin. Með frumvarpinu er jafnframt lagt til að ekki verði kveðið á um skyldu til að grafa kerin niður í grafarstæði eða leggja þau í leiði annarra heldur verður um heimild að ræða til annarrar ráðstöfunar. Sé hins vegar ákveðið að grafa duftker í kirkjugarði skal fylgja ákvæði laganna.
Með frumvarpinu er þó lagt til að áfram verði kveðið á um að duftker verði úr forgengilegu efni og eins að kveðið verði á um nánari reglur um dreifingu ösku látins manns í reglugerð, t.d. með upplýsingum til legstaðaskrár um staðsetningu dreifingar ösku. Á Norðurlöndunum eru sérstakir skógar til staðar fyrir dreifingu líkamsleifa og þar má setja upp minningarskjöld sem ættingjar geta vitjað og viðhaldið. Á Norðurlöndunum eru þó ákveðin skilyrði fyrir dreifingu ösku en þau eru almennt rýmri en hér tíðkast.
Fólki er fyllilega treystandi til að útfæra sinn hinsta hvílustað af smekkvísi og virðingu. Reynsla annarra landa sýnir það. Aukið frjálsræði í þessum efnum hér á landi hlýtur því að teljast sjálfsagt mál í nútímasamfélagi.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. nóvember 2020.