676 samkeppnishindranir
'}}

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Gef­um okk­ur að sér­fræðing­ar OECD hafi aðeins rétt fyr­ir sér að helm­ings­hluta í ít­ar­legu sam­keppn­ismati á því reglu­verki sem gild­ir hér á landi í bygg­inga­starf­semi og ferðaþjón­ustu. Í stað þess að 676 mögu­leg­ar sam­keppn­is­hindr­an­ir séu í reglu­verki þess­ara tveggja starfs­greina séu þær „aðeins“ 338. Um leið get­um við tekið ákvörðun um að hrinda í fram­kvæmd 219 af 438 til­lög­um OECD til úr­bóta og sætt okk­ur við að auka lands­fram­leiðsluna um 16 millj­arða á ári en ekki 32 millj­arða (um 200 millj­ón­ir evra).

Sem sagt: Með ein­föld­un reglu­verks get­um við bætt hag lands­manna um 16 millj­arða á hverju ein­asta ári, ár eft­ir ár. Og þó væri ráðum OECD ekki fylgt nema að hluta. Það væri full­komið ábyrgðarleysi af hendi stjórn­valda, þing­manna og hags­munaaðila að tryggja ekki að slík­ur ár­ang­ur ná­ist.

Tug­millj­arða ár­leg sóun

Stjórn­völd sömdu á síðasta ári við OECD um sjálf­stætt sam­keppn­ismat á reglu­verki sem bygg­inga­starf­semi og ferðaþjón­ustu er gert að starfa eft­ir. Matið var unnið í sam­vinnu við Sam­keppnis­eft­ir­litið. Til­lög­um til breyt­inga er ætlað að skapa sveigj­an­legra um­hverfi fyr­ir viðkom­andi at­vinnu­grein, skapa fleiri störf og auka fram­leiðni og vöxt í hag­kerf­inu á næstu árum. OECD seg­ir að úr­bæt­urn­ar séu sér­stak­lega „mik­il­væg­ar í ljósi þess efna­hags­sam­drátt­ar sem stjórn­völd standa nú frammi fyr­ir vegna áhrifa kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins, sem hef­ur komið sér­stak­lega illa niður á ferðaþjón­ustu“.

Flest­ir hafa gert sér grein fyr­ir að ferðaþjón­usta skipt­ir okk­ur Íslend­inga miklu en kannski höfðum við ekki áttað okk­ur á hversu mik­il­væg at­vinnu­grein­in er í raun og veru um allt land fyrr en kór­ónu­veirufar­ald­ur­inn skall á af full­um þunga. Bygg­ing­ariðnaður hef­ur alltaf vegið þungt. En sam­tals eru þess­ar tvær at­vinnu­grein­ar þó aðeins hluti af efna­hags­kerf­inu. Ef hægt er að yf­ir­færa niður­stöður OECD á aðrar at­vinnu­grein­ar, er ljóst að tug­um millj­arða er sóað á hverju ein­asta ári í formi lak­ari fram­leiðni og verri sam­keppn­is­stöðu. Og eins og alltaf eru það al­menn­ing­ur og fyr­ir­tæki sem bera byrðarn­ar í formi verri lífs­kjara og af­komu. Reglu­væðing margra annarra at­vinnu­greina er síst minni en hjá ferðaþjón­ustu og bygg­ing­ariðnaði.

316 úr­bæt­ur í bygg­ing­ariðnaði

OECD ger­ir 316 til­lög­ur til úr­bóta á reglu­verki í bygg­ing­ariðnaði. Þar má nefna:

Skipu­lags­mál: Ein­falda ákv­arðanir í skipu­lags­mál­um sveit­ar­fé­laga, lækka gatna­gerðar­gjöld, og end­ur­skoða regl­ur um út­hlut­un lóða.

Mann­virkjalög og bygg­ing­ar­reglu­gerð: Ein­falda veit­ingu bygg­ing­ar­leyfa, flýtimeðferð fyr­ir smærri og ein­fald­ari verk­efni, end­ur­skoða skil­yrði um lág­marks­gæði og aðgengi fyr­ir alla

Lög­gilt­ar starfs­grein­ar: End­ur­skoða í heild lög um lög­gilt­ar starfs­grein­ar, end­ur­skoða kerfi meist­ara­rétt­inda og gera það auðveld­ara fyr­ir iðnaðar­menn að afla sér meist­ara­rétt­inda, draga úr reglu­byrði fyr­ir smiði, raf­virkja, píp­ara, bygg­ing­ar­stjóra, lög­gilta hönnuði, fast­eigna­sala, arki­tekta og verk­fræðinga, og af­nema lög­gild­ingu bak­ara og ljós­mynd­ara. (Ég er ekki viss um að ég hafi leyfi frá gamla bak­ara­meist­ar­an­um á Sauðár­króki til að samþykkja af­nám lög­gild­ing­ar).

121 lag­fær­ing hjá ferðaþjón­ustu

Í skýrslu OECD voru skoðaðar 229 mögu­leg­ar sam­keppn­is­hindr­an­ir í reglu­verki ferðaþjón­ust­unn­ar og lögð fram 121 til­laga til úr­bóta. Þar má nefna:

Ferðatengd þjón­usta: Af­nema tvö­falda leyf­is­skyldu ferðaþjón­ustu­leyfa og leyfa vegna sér­út­bú­inna bif­reiða, af­nema úr­elt og of ná­kvæm forskrift­ar­á­kvæði í stöðlum um gisti­staði, af­nema höml­ur sveit­ar­fé­laga á breyt­ing­um á nýt­ingu íbúðar­hús­næðis í gisti­hús­næði, setja ramm­a­lög­gjöf um at­vinnu­starf­semi á nátt­úru­vernd­ar­svæðum og af­nema kröf­ur um fasta starfs­stöð og starfs­ábyrgðartrygg­ing­ar bíla­leiga.

Flugþjón­usta: Auka hvata Isa­via á Kefla­vík­ur­flug­velli til að draga úr kostnaði og auka sam­keppn­is­hæfni (flug­völl­ur­inn er einn óhag­kvæm­asti og dýr­asti flug­völl­ur í Evr­ópu), veita Sam­göngu­stofu heim­ild­ir til að setja regl­ur um flug­vall­ar­gjöld sem rekstr­araðilar á Kefla­vík­ur­flug­velli þurfa að greiða, end­ur­skoða hvernig sér­leyf­is­samn­ing­ar eru veitt­ir fyr­ir sölu veit­inga og ann­ars varn­ings í flug­stöðinni og fyr­ir aðstöðu fyr­ir lang­ferðabíla.

Leigu­bif­reiðar: Af­nema náms­kröf­ur til hand­hafa leigu­bíla­leyfa sem ekki varða ör­yggi farþega, öku­manna eða al­menn­ings, heim­ila út­gáfu leigu­bíla­leyfa til fyr­ir­tækja og gera þeim kleift að hafa á hendi fleiri en eitt leigu­bíla­leyfi.

Verk­efni kom­andi ára

Þrátt fyr­ir yf­ir­lýst mark­mið um annað hef­ur reglu­væðing at­vinnu­lífs­ins í mörg­um til­fell­um dregið úr hag­kvæmni, komið niður á virkri sam­keppni og gengið gegn hags­mun­um neyt­enda. Frum­kvæði er ekki verðlaunað og fram­taksmaður­inn lát­inn þramma á milli Pílatus­ar og Heródes­ar til að afla sér til­skil­inna leyfa fyr­ir at­vinnu­rekstri. Ég hef orðað þetta sem svo að það sé erfiðara, vanda­sam­ara og tíma­frek­ara fyr­ir at­vinnu­rek­end­ur að upp­fylla kröf­ur hins op­in­bera en að sinna þörf­um og ósk­um viðskipta­vina.

For­gangs­verk­efni stjórn­valda, það sem eft­ir lif­ir kjör­tíma­bils­ins og a.m.k. allt næsta kjör­tíma­bil, er að stuðla að upp­bygg­ingu at­vinnu­lífs­ins svo við náum aft­ur fyrri styrk og get­um sótt fram. Verðmæta­sköp­un­in í frysti­hús­inu, í málmsmiðjunni, hjá rak­ar­an­um, á veit­inga­hús­inu, hjá tölvu­leikja­fram­leiðand­an­um, sauðfjár­bónd­an­um, bygg­inga­verk­tak­an­um, bif­véla­virkj­an­um, stoðtækja­fram­leiðand­an­um, trillu­karl­in­um, tón­skáld­inu, rit­höf­und­in­um og ann­ars staðar í at­vinnu­líf­inu er und­ir­staða vel­ferðar­kerf­is­ins. Án verðmæta verður lítið til skipt­anna. Um þetta munu kom­andi kosn­ing­ar snú­ast.

Sá stjórn­mála­flokk­ur sem sýn­ir áhuga á at­vinnu­líf­inu, hef­ur inn­an sinna raða fram­bjóðend­ur sem hafa skiln­ing á gang­verki at­vinnu­lífs­ins og skil­ur sam­hengið á milli verðmæta og vel­ferðar mun standa sterkt að vígi að lokn­um kosn­ing­um í sept­em­ber næst­kom­andi.

Skýr sýn á það hvernig end­ur­hanna á marg­flókið reglu­verk, hvernig hægt er að gera það ein­fald­ara að stunda at­vinnu­rekst­ur og plægja frjó­an jarðveg fyr­ir ný fyr­ir­tæki sem leggja grunn að bætt­um lífs­kjör­um og störf­um framtíðar­inn­ar, skil­ar ár­angri á kjör­degi. Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ráðherra ný­sköp­un­ar, og Bjarni Bene­dikts­son fjár­málaráðherra hafa þegar lagt horn­steina að fram­sókn at­vinnu­lífs­ins með skatta­leg­um hvöt­um til rann­sókna og þró­un­ar.

Úttekt OECD er góður leiðar­vís­ir í þeim verk­efn­um sem eru fram und­an, þótt sumt af því sem lagt er til kunni að orka tví­mæl­is. En jafn­vel þótt við ákveðum að inn­leiða aðeins helm­ing þeirra til­lagna sem stofn­un­in mæl­ir með, skil­ar það allt að 16 millj­örðum á hverju ein­asta ári. Og við verðum að horfa á og meta stöðuna í öðrum grein­um efna­hags­lífs­ins. Pott­ur er víða brot­inn. Bygg­ing­ariðnaður og ferðaþjón­usta eru inn­an við 20% lands­fram­leiðslunn­ar. Hug­leiðum tæki­fær­in sem bíða okk­ar ef haldið er rétt á mál­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. nóvember 2020.