„Íslenskt atvinnulíf stendur nú frammi fyrir áskorunum af áður óþekktum stærðargráðum. Aðgerðir til þess að viðhalda eða efla virka samkeppni eru afar mikilvægar í kjölfar efnahagsáfalla og stuðla að hraðari endurreisn atvinnulífsins á meðan aðgerðir sem vinna gegn virkri samkeppni draga úr efnahagsbata,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en hún ásamt öðrum kynnti í dag niðurstöður skýrslu OECD um samkeppnismat íslenskrar ferðaþjónustu og byggingariðnaðar sem tekin var saman að frumkvæði Þórdísar Kolbrúnar.
„Stjórnvöld verða sífellt að vera vakandi gagnvart þróun regluverksins og huga að því hvaða áhrif regluverkið hefur á skilyrði fyrir virkri samkeppni í atvinnulífinu. Íslensk ferðaþjónusta og byggingariðnaður eru þjóðhagslega mjög mikilvægar atvinnugreinar og veita fjölda fólks atvinnu og skipta almenning miklu máli. Þess vegna óskaði ég eftir því að OECD framkvæmdi samkeppnismat á regluverki íslensks byggingariðnaðar og íslenskri ferðaþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún um skýrslu OECD
Efnahags og framfarastofnunin OECD gerir 438 tillögur til breytinga á gildandi lögum og reglum sem snúa að ferðaþjónustu og byggingariðnaði til að auka samkeppnishæfni greinanna. Tilgangur samkeppnismatsins er að greina gildandi regluumhverfi með tilliti til þess hvort í þeim reglum sem atvinnulífinu er gert að starfa eftir felist samkeppnishindranir eða óþarfa reglubyrði sem ryðja megi úr vegi.
„Allar þessar tillögur verða nú rýndar. Hvað varðar til dæmis umgjörð um löggiltar starfsgreinar mun ég óska eftir því að starfandi starfshópur um endurskoðun á eftirlit með lögum um handiðnað fái þann þátt úttektarinnar til umsagnar og vinni tillögur að næstu skrefum þar sem samráð er tryggt með fulltrúum mismunandi hagaðila,“ segir Þórdís Kolbrún.
Ef öllum tillögunum sem fram koma í skýrslunni verður hrint í framkvæmt er það mat OECD að það geti skilað auknum efnahagslegum umsvifum sem nemi um 1% af vergri landsframleiðslu Íslands eða yfir 30 milljörðum króna árlega.
„Greining OECD leiðir í ljós að til staðar eru fjölmörg tækifæri til þess að bæta regluverkið, skýra það og draga úr óþarfa reglubyrði. Þannig stuðlum við að aukinni samkeppni sem neytendur og atvinnulífið njóta góðs af,“ segir Þórdís Kolbrún.
Frétt á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins má finna hér. Skýrslu OECD má finna hér og hægt er að nálgast kynninguna hér.