Vilhjálmur Bjarnason varaþingmaður:
Þegar ferðast er um Ísland reyna heimamenn að sýna gestum betri hliðina. Betri hliðin er oftar en ekki eitthvað gamalt, og jafnvel nýtt og nýstárlegt og nýsmíðaðar fornminjar. Stundum er þetta gamla frá umliðnum öldum, jafnvel af fyrri öldum jarðsögunnar.
Þannig er Gerpir á sínum stað, þeim til sýnis sem þangað leggja leið sína. Gerpir er á elsta hluta landsins. Nærri Gerpi er Helgustaðanáman með sitt silfurberg. Silfurberg er kísilútfelling úr heitu vatni. Nú er jarðhitinn horfinn í silfurbergsnámunni. Gerpir og Helgustaðanáman eru sköpun náttúrunnar.
Um allt land eru söfn með amboðum, lóðum, krókum og heimasmíðuðum heflum. Allt voru þetta atvinnutæki síns tíma. Svo þykir til siðs að koma upp samgönguminjasöfnum með gömlum ökutækjum.
Í Neskaupstað er Listasafn Tryggva Ólafssonar, en þar fæddist hann.
Sum þessara safna eru staðbundin frægð en önnur kunna að ná alþjóðlegum mælikvarða.
Ljósmyndin í myndlist
Lengi hefur verið litið á ljósmyndun sem tómstundagaman. Þegar ljósmyndin eldist verður myndin skyndilega heimild. Einstaka ljósmynd verður að listaverki. Fangað augnablik. Ljósmyndin er í eðli sínu listaverk.
Ljósmyndir Hjálmars R. Bárðarsonar frá sumrinu 1937, þegar hann tók stúdentspróf, eru einstök heimild um byggð sem var að fjara út, deyja, byggðin á Hornströndum hvarf tíu árum síðar. Í þessum heimildum um deyjandi byggð eru myndir sem eru hreint listaverk. Kirkjan á Stað í Aðalvík í auga myndavélar Hjálmars er listaverk.
Ljósmyndun er vanmetin listgrein. Konseptið í augnablikinu fer á ljóshraða. Það þykir hentugra en að fanga augnablikið í olíu á striga eða með vatnslitum á pappír. Íslensk sjónmennt byggðist á því að ná hinu upphafna í landslaginu og fanga hið þjóðlega á þeim augnablikum þegar tímamót voru í aðsigi í íslenskri stjórnskipan eða þjóðarsögu. Þannig verða Þingvellir og fjallkonan að þjóðartáknum.
Ljósmyndin er frjálst listform en byggist á aga og þekkingu. Fjölmargir íslenskir myndlistarmenn hafa náð aganum og náð konseptinu í augnablikinu.
Sigurður Guðmundsson myndlistarmaður er afar fjölhæfur. Verk hans í steini, hinum harða listmiðli, hafa mikið aðdráttarafl á bryggjunni á Djúpavogi. Þó kann að vera að Sigurður sé þekktastur fyrir verk sín í ljósmyndinni.
Hrafnkell Sigurðsson myndlistarmaður er listamaður konseptsins í ljósmyndinni. Verk hans fjalla um andstæður og árekstra. Milli hárfínnar menningar og hrjúfrar náttúru. Mörg verkanna eru þekkt um allan heim.
Samtímalistasafn (NÓMAH)
Djúpivogur er merkilegt byggðarlag. Ýmsum kann að koma á óvart að þar er rík ljósmyndahefð. Nikólína Weywadt á Teigarhorni er einn fyrsti ljósmyndarinn á Austurlandi. Fósturdóttir hennar, Hansína Regína Björnsdóttir, hélt áfram starfi hennar í ljósmyndun á Teigarhorni. Sumar af þeirra myndum eru merkar heimildir um Djúpavog, en þær eru jafnframt listaverk. Sumt er tækt á NÓMAH fyrir konseptið, augnablik liðinna alda.
Það eiga alls ekki öll listasöfn að vera í Reykjavík. Hugmynd að listasafni þarf að byggjast á truflaðri hugmynd og áræði. Þekking á efninu er einnig nauðsynleg.
NÓMAH á Djúpavogi getur orðið perla íslenskra listasafna með alþjóðlega tengingu í tengslaneti Sigurðar Guðmundssonar.
Vandamál nýrra listasafna er að ná í verk sem hæfa. Sigurður Guðmundsson og vinir hans sjá um öflun verka í NÓMAH á Djúpavogi. Hver vill ekki eiga verk í safni í litlum bæ?
Ef Samtímalistasafnið NÓMAH á Djúpavogi tekst kemst Ísland á heimskort samtímamyndlistar.
Hvað segir skáldið?
Sá tími er löngu liðinn, að við getum séð fyrir okkur cosmotheros,
áhorfanda heimsins.
Hann er liðinn undir lok því heimurinn lætur ekki lengur myndgera sig.
Myndgerving heimsins, heimssýnin, felur í sér aðheiminum sé gefin regla og markmið.
Þannig mætti jafnvel segja að tiltekin sýn á heiminn feli í sér endalok þess sama heims,
sem þannig væri innlimaður og leystur upp í þessari sömu heimssýn.
(Jean-Luc Nancy)
Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. nóvember 2020.