Íslenskt atvinnulíf hefur mikið fram að færa
'}}

„Þróunarríki koma fyrst til með að rétta úr kútnum efnahagslega þegar þeim tekst að fjölga sjálfbærum fyrirtækjum og efla sjálfstæðan atvinnurekstur. Fyrirtæki ráða fólk til vinnu og skapa verðmæti, sem þau útdeila með því að borga kaup. Þannig aukast umsvif sem ýta undir almenna hagsæld, alveg eins og gerðist hjá okkur fyrir ekki svo löngu síðan. Efnahagur Íslands var á pari við Afríkuríki sunnan Sahara fyrir hundrað árum. Við rifum okkur upp með því að byggja upp heilbrigða atvinnuvegi, sem borga fyrir almenna velmegun. Afríka getur það líka,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra í viðtali við Fréttablaðið í tilefni þess að Ísland samþykkti nýverið ásamt hinum Norðurlöndunum að endurfjármagna Norræna þróunarsjóðinn um 350 milljónir evra til næstu tíu ára, en hlutur Íslands er um 870 milljónir króna sem greiðast á árunum 2022-2031.

„Í alþjóðlegri samvinnu leggjum við mikla áherslu á mál þar sem við höfum hvað mestu að miðla, en það eru markmiðin sem varða jafnrétti og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda,“ segir Guðlaugur Þór og einnig: „Í þessu samhengi má nefna að vel hefur gengið að virkja íslenska sérþekkingu á sviði jarðhita í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir svo sem Norræna þróunarsjóðinn (NDF) og Alþjóðabankann. Þessi verkefni styðja við viðleitni og getu landa til að nýta jarðhita, framleiða orku og skapa störf, en á sama tíma skapast tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki til frekari þátttöku í verkefnum á þessu sviði.“

Hann nefndi heimsókn sína til Malaví á síðasta ári, en það er eitt fátækasta ríki heims og hefur verið í samstarfi við Ísland í rúma þrjá áratugi.

„Lítið útflutningsfyrirtæki í þorpi við Malavívatn getur skipt sköpum fyrir afkomu þorpsbúa. Takist vel upp í einu þorpi verður það öðru þorpi fyrirmynd og svo koll af kolli. Þannig má draga úr fátækt og skapa grundvöll fyrir góða, almenna menntun og nauðsynlega læknishjálp til að verjast landlægum plágum, sem oft lama þjóðlífið og kalla yfir það stöðnun. Öll sjálfbær uppbygging innviða, sem svo sárlega vantar víða, byggist á sköpun verðmæta,“ segir utanríkisráðherra.

„Með réttum formerkjum geta fyrirtæki í okkar heimshluta lagt mikið af mörkum í þessari baráttu. Þau geta kynnt nýja tækni og þekkingu sem eykur framleiðni og skapar störf og af því er gagnkvæmur ávinningur,“ segir Guðlaugur Þór.

„Opinber þróunarsamvinna hefur verið stunduð um árabil og komið mörgu góðu til leiðar, það er engin spurning. En í henni felast þekktar hættur. Sannfærandi kenningar eru um að hún geti dregið úr framtaksvilja. Í einstaka ríkjum er hún atvinnustarfsemi í sjálfu sér sem best menntaða fólkið hefur lífsviðurværi sitt af. Það fólk þarf fleiri tækifæri sem gera þróunarsamvinnu óþarfa þegar fram líða stundir. Það gerist ekki á einni nóttu – engum dettur það í hug. En Samstarfssjóðurinn er stofnaður með það fyrir augum. Íslenskt atvinnulíf hefur mikið fram að færa á þeirri leið,“ segir Guðlaugur Þór en viðtalið í heild má finna hér.