Óli Björn Kárason formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:
Með aðgerðum, og á stundum aðgerðaleysi, geta stjórnvöld ýmist örvað verðmætasköpun efnahagslífsins eða dregið verulega úr henni, jafnvel lamað. Enginn stjórnmálamaður er tilbúinn til að viðurkenna að hann vilji draga úr verðmætasköpun. Flestir ef ekki allir segjast leggja áherslu á að auka það sem er til skiptanna, nýta auðlegð til að styrkja samfélagið, byggja upp innviði og bæta lífskjör almennings.
Hér verður ekki farið út í ólíka sýn um hvernig markmiðinu um bætt lífskjör verður best náð. Ágreiningurinn er og verður alltaf til staðar. Tekist er á um verksvið hins opinbera, aukin eða minni útgjöld ríkisins, meðferð almannafjár, fjölgun eða fækkun starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, hærri eða lægri skatta. Oft leiðir ágreiningurinn til þess að menn missa sjónar á verkefninu sjálfu og festast í endalausri þrætu um hvernig eigi að skipta þjóðarkökunni í stað þess að beina kröftum sínum í að baka stærri köku.
Ekki án kostnaðar
Vonandi gerum við okkur öll hins vegar grein fyrir því að ekkert samfélag – skiptir engu hversu öflugt efnahagslífið er – fær staðist til lengri tíma ef komið er í veg fyrir efnahagslega starfsemi borgaranna – sköpun verðmæta. Engu að síður höfum við tekið þá ákvörðun í baráttu við hættulega veiru að draga úr verðmætasköpun – lama hluta viðskiptalífsins. Slíkt hefur verið talið réttlætanlegt í varnarbaráttu þar sem líf og heilsa almennings er aðalatriðið.
En baráttan er ekki án kostnaðar. Hluti kostnaðarins er dulinn, verður illa metinn og kemur ekki fram fyrr en síðar. Við eigum erfitt með að átta okkur á hvaða áhrif veirufaraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans hafa á geðheilbrigði þjóðarinnar. Ákvörðun um að fresta svokölluðum valkvæðum aðgerðum á sjúkrahúsum er ekki án kostnaðar fyrir samfélagið og viðkomandi einstakling. Lokun líkamsræktarstöðva og skert starfsemi íþróttafélaga hefur neikvæð áhrif á líkamlegt og andlegt heilbrigði. Sú ákvörðun að nýta ekki krafta einkaframtaksins í heilbrigðiskerfinu á sama tíma og Landspítalinn ber hitann og þungann af því að sinna þeim sem veikjast í faraldrinum, er ekki aðeins óskiljanleg heldur kostnaðarsöm. Sá kostnaður er ekki aðeins beinn heldur ekki síður óbeinn í formi verri heilbrigðisþjónustu við þá sem þurfa á henni að halda. Lífsgæði þeirra minnka og það leiðir að líkindum til aukins kostnaðar í framtíðinni. Fórnarkostnaðurinn er margvíslegur og borgaraleg réttindi eru í húfi.
Dregið úr bolmagni samfélagsins
Eftir því sem tíminn líður verður mikilvægara að stjórnvöld vegi og meti beinan og óbeinan kostnað sem fylgir varnaraðgerðum gegn kórónuveirunni. Sá kostnaður verður ekki aðeins mældur í formi rúmlega 500 milljarða halla á ríkissjóði, né í þeim kostnaði sem viðskiptalífið verður fyrir eða áðurnefndum duldum kostnaði. Með því að veikja viðskiptahagkerfið með takmörkunum á athafnafrelsi er verið að draga úr bolmagni okkar sem samfélags að komast fljótt og vel út úr efnahagslegum þrengingum þegar birtir til.
Í apríl síðastliðnum skrifaði ég meðal annars hér á síður Morgunblaðsins:
„Eitt mikilvægasta verkefni stjórnvalda er að verja framleiðslugetu hagkerfisins. Koma í veg fyrir að tímabundið fall í eftirspurn vegna heimsfaraldurs verði til þess að innviðir viðskiptahagkerfisins molni og verði að engu. Byggingar, tæki, tól, fjármagn en ekki síst hugvit og þekking starfsmanna eru forsendur verðmætasköpunar í samfélaginu. Án verðmætasköpunar lamast heilbrigðiskerfið. Velferðar- og menntakerfi verður aðeins fjarlægur draumur. Verðmætasköpun stendur undir lífskjörum þjóða.
Hvernig tekst til við að verja framleiðslugetuna ræður úrslitum um hversu fljótt og vel okkur Íslendingum tekst að vinna okkur upp úr djúpum efnahagslegum öldudal.“
Þyngri byrðar á suma
Við sem samfélag höfum lagt þyngri byrgðar á herðar ákveðinna hópa samfélagsins en aðra. Eigendur og starfsmenn öldurhúsa og veitingastaða hafa þurft að sæta því að loka starfsemi að fullu eða að stórum hluta. Hárgreiðslu- og rakarastofur einnig, kvikmynda- og samkomuhúsum og ýmissi þjónustu, ekki síst á sviði heilbrigðisþjónustu, hefur verið skellt í lás í lengri eða skemmri tíma eða svo viðamiklar takmarkanir settar á starfsemina að hún getur aldrei staðið undir sér. Listamenn hafa ekki farið varhluta af skertu athafnafrelsi.
Það er því eðlilegt og sanngjarnt að komið sé til móts við þá sem í nafni almannaheilla hefur verið gert að draga verulega úr starfsemi sinni eða hætta henni tímabundið. Þetta hefur verið gert að hluta. Með tveimur frumvörpum fjármálaráðherra um styrki fyrir einyrkja og örfyrirtæki og lokunarstyrki til fyrirtækja er tekið stærra skref en áður til að jafn byrðarnar örlítið meira. Frumvörpin eru til meðferðar í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Þau taka að líkindum einhverjum breytingum með hliðsjón af ábendingum sem fram hafa komið, ekki síst til að koma til móts við þau fyrirtæki sem hafa sætt verulegum takmörkunum en hefur ekki verið gert að skella öllu í lás. Vonandi ber Alþingi gæfu til að afgreiða bæði frumvörpin fyrir lok komandi viku.
Aðgerðir af þessu tagi eru ekki aðeins til að dreifa byrðunum (að hluta) heldur ekki síður til að verja framleiðslugetu viðskiptahagskerfisins. Tryggja innviðina, hugvitið, þekkinguna og framtaksþróttinn. Öflugt viðskiptahagkerfi er forsenda lífskjara – þar verða verðmætin til. Þessi einföldu sannindi verða aldrei ljósari en þegar tekist er á við efnahagslegar þrengingar og barist er við skæða veiru. Til lengri tíma litið getur varnarbaráttan ekki falist í því að lama verðmætasköpunina heldur örva hana og tryggja þannig fjárhagslegan styrk til að takast á við verkefnin, jafnt í vörn og sókn.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. október 2020.