Egill Þór Jónsson borgarfulltrúi:
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur úthlutað gæðingum innan borgarkerfisins klúbbkortum að „Vinnustofu Kjarvals“, einkaklúbbi sem starfræktur er í glæsilegu húsnæði við Austurvöll. Fyrr á árinu var upplýst að útsvarsgreiðendur í Reykjavík greiða 1,6 milljónir króna fyrir klúbbkortin. Á vinnustofunni er auglýst góð aðstaða til samkomuhalds, léttar veitingar í boði og að opið sé fram yfir miðnætti um helgar. Markmiðið er sagt vera „að bæta vinnuaðstöðu starfsfólks og tryggja aðgang að fundaraðstöðu utan stjórnsýslubygginga á hagkvæmu verði“. Í sumar var sagt að um tilraunaverkefni væri að ræða, nú er það kallað þróunarverkefni.
Ábyrgð og hófsemi?
Lengi vel náðist ekki í Dag borgarstjóra vegna málsins. Það tókst loks í síðustu viku og sagði hann þá að umrætt verkefni einkenndist af ábyrgð og hófsemi og að það hefði líklega leitt til sparnaðar fyrir borgina. Allir sjá þó að auðvitað sparast ekkert með því að flytja fundi úr eigin húsnæði, sem ekki þarf að borga fyrir, á veitingastað úti í bæ.
Af hverju er það forgangsmál borgarstjóra að tryggja völdum borgarstarfsmönnum fundaraðstöðu hjá einkaklúbbi? Reykjavíkurborg á og rekur um 600 byggingar og eru fjölmargar þeirra með góðri aðstöðu fyrir fundi og annað samkomuhald.
Klúbbkortunum virðist síst hafa verið dreift til þeirra borgarstarfsmanna sem helst þurfa að sætta sig við bága fundaraðstöðu, t.d. starfsfólks leikskóla. Þvert á móti virðast starfsmenn í efsta lagi stjórnsýslunnar hafa notið þeirra, þ.e. þeir starfsmenn sem hafa vinnuaðstöðu í Ráðhúsinu og Höfðatorgi við Borgartún þar sem enginn skortur er á fundarherbergjum.
Skiljanlegt er að borgarstarfsmenn vilji stundum leita út fyrir daglegan vinnustað sinn til fundahalda, t.d. vegna teymisvinnu eða starfsdags. En í þeim tilvikum standa til boða afnot af óteljandi fundarherbergjum Reykjavíkurborgar sem mörg hver eru lítið nýtt. Úrvals fundaraðstaða er í öllum stjórnsýslubyggingum borgarinnar auk góðra fundarsala í grunnskólum, menningarmiðstöðvum, félagsmiðstöðvum, frístundamiðstöðvum og borgarfyrirtækjum.
Af hverju hentar vínveitingastaður úti í bæ betur til slíkra funda og viðtala en fjölmörg fundarherbergi borgarinnar af öllum stærðum og gerðum?
Hennessy VSOP og Moscow Mule
Nú er komið svar við þessari spurningu. Svarið er Hennessy VSOP, Moscow Mule, Lagavulin (16 ára) og Chardonnay. Útvaldir yfirmenn og starfsmenn borgarinnar hafa drukkið áfengi fyrir hundruð þúsunda króna á Vinnustofu Kjarvals og eru áðurnefndar víntegundir þar á meðal. Þá var tugþúsunda króna áfengisreikningur endurgreiddur í ofboði eftir að Fréttablaðið spurðist fyrir um málið.
Hjá Reykjavíkurborg hefur sú regla lengi gilt við áfengisveitingar að ekki megi veita sterkt vín heldur einungis léttvín og bjór. En í Fréttablaðinu sl. laugardag lýsti Dagur borgarstjóri yfir velþóknun sinni á því að vodka, koníak og 16 ára gamalt viskí væru veitt á kostnað borgarinnar á Vinnustofu Kjarvals og sagði að umrædd áfengiskaup væru „til marks um ábyrgð og hófsemi“. Áðurnefnd „léttvínsregla“ gildir því greinilega ekki lengur. Væntanlega fá nú allir borgarstarfsmenn að njóta þessara guðaveiga í teymisvinnu sinni en ekki bara gæðingar borgarstjóra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. október 2020.