Tækifærin blasa við íslenskum landbúnaði
'}}

„Mitt fyrsta verk sem landbúnaðarráðherra 2017 var að bregðast við fordæmalausum vanda sauðfjárbænda og úthluta mörghundruð milljónum þeim til handa. Ég réðist einnig í endurskoðun búvörusamninga sem voru þá í uppnámi og endurskoðun sauðfjársamningsins þar sem gripið var til aðgerða til að mæta einni af stærstu áskorun sauðfjárbænda – að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir. Afurðaverð hefur síðan hækkað um fjórðung,“ segir Kristján Þór Júlíusson landbúnaðarráðherra.

„Ég féll einnig frá þeim áformum sem uppi voru áður en ég tók við embætti um að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu – það hefur stuðlað að jafnri stöðu mjólkurframleiðenda um land allt með samsvarandi byggðafestu,“ segir Kristján Þór.

Hann segir að íslenskur landbúnaður sé og verði alvöru atvinnugrein og hryggjarstykki byggðar í sveitum landsins. Íslenskur landbúnaður gegni þjóðhagslega mikilvægu hlutverki fyrir allt samfélagi og að hann hafi tekið stór skrf til að snúa vörn í sókn í íslenskum landbúnaði á þessu kjörtímabili.

Ásamt ofantöldu má nefna að blásið var nýlega til sóknar í íslenskri garðyrkju með auknum fjárframlögum til að einfalda flutnings- og dreifikostnað rafmagns. Áhersla hafi einnig verið á að efla matvælaöryggi, tryggja vernd bústofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Þegar sé unnið eftir aðgerðaráætlun í þessum efnum.

„Nýsköpun er einnig sá kraftur sem knýr nýjar lausnir í landbúnaði og því setti ég Matvælasjóðinn á laggirnar.

En til að kraftur einstaklingsins til frumkvæðis, lausna og nýrra hugmynda nái fram að ganga þarf að einfalda regluverk svo leiðin að markinu sé greiðari. Það hef ég gert og þegar fellt brot um 1200 reglugerðir og breytt lögum í þá átt. Ég er þó hvergi nærri hættur,“ sagði Kristján Þór.

Þá segir hann eitt stærsta hagsmunamál íslensks landbúnaðar að móta landbúnaðarstefnu fyrir Ísland.

„Greiningar benda til þess að íslenskur landbúnaður standi nú á krossgötum og því rétti tíminn til að efla þessa vinnu og skapa sameiginlega sýn og áherslur til framtíðar.

Við þurfum að halda áfram að sækja fram fyrir hagsmuni íslensks landbúnaðar. Tækifærin blasa við,“ segir Kristján Þór.